Vettvangsferð í Vatnsdalinn

Nemendur í 8. til 10. bekk Húnavallaskóla hafa unnið með þjóðsögur í heimabyggð í vetur og  hafa í því verkefni unnið mikið með Vatnsdælu, landnámssögu svæðisins. Fóru  í vettvangsferð í Vatnsdalinn 12. janúar s.l.

Kennararnir Helga og Sonja gerðu ferðinni skil á heimasíðu skólans og er forvitnilegt að lesa söguna og birtum við hana hér.

Á þriðjudaginn 12. janúar fóru nemendur 8. til 10. bekkjar ásamt samfélagsfræðikennurum sínum, Sonju og Helgu, sagnfræðingnum Þór Hjaltalín, Hauki Suska, bónda í Hvammi og Halli Hilmarssyni, bílstjóra í vettvangsferð í Vatnsdalinn á Vatnsdæluslóðir.

Þór var leiðsögumaður ferðarinnar og sagði í megin dráttum frá sögunni og tengingu hennar við bæina í Vatnsdal.

Það var stoppað á þremur stöðum til þess að skoða tóftir sem gætu tengst sögunni, fyrst var stoppað á Hofi þar sem Ingimundur gamli reisti bæ sinn.  Þar var gengið upp á Goðhól, en þar er hægt að sjá tóftir sem fornleifafræðingar eru ekki alveg vissir um hvað hafi verið.  Nemendurnir voru með margar góðar kenningar um hvað hafi verið þar en þar sem enginn veit fyrir víst hvað var þarna vitum við ekki hvort hugmyndir þeirra hafi verið réttar.

Næsta stopp var á stað sem sagnfræðingar telja að séu Jökulstaðir sem einnig báru nafnið Efri-Tunga í sögunni en á þeim bæ bjó Jökull sonur Ingimundar gamla. Tóftirnar sem menn telja að gætu verið Efri-Tunga eru staðsettar fyrir ofan Þórormstungu sem bar nafnið Neðri-Tunga í sögunni.  Það kom mörgum á óvart hvað tóftirnar voru litlar.  Ástæðan fyrir því að tóftirnar eru ekki stærri er sú að á tímum víkinga voru íbúðarhúsin og útihúsin ekki eitt og sama húsið.  Á Efri-Tungu er mjög fallegt útsýni yfir nánast allan Vatnsdalinn sem hefur verið mjög gott fyrir Jökul Ingimundarson þar sem hann var mesti stríðsmaðurinn af þeim bræðrum.

Þriðja og síðasta stoppið var á Faxabrandsstöðum sem eru sunnanmegin við Miðhús. Á Faxabrandsstöðum bjó Brandur sem átti hestinn Freyfaxa sem var mjög áttvís.  Þar gaf Þór nemendum tækifæri á að finna tóftirnar af bænum.  Það var ekki auðveld leit því þar sem Faxabrandsstaðir hafa staðið eitt sinn voru stórar og miklar þúfur. Ákafinn var svo mikill hjá nemendum að finna tóftirnar að einn þeirra tapaði símanum sínum um stund en heppnin var með hópnum bæði tóftirnar og síminn fundust svo allir gátu farið glaðir heim.

Vettvangsferðin heppnaðist vel, ekki skemmdi fyrir að allir voru í góðu skapi og veðrið var mjög gott.  Allir fræddust mikið og það sem vakti einna helst áhuga bæði nemenda og kennara var tenging Vatnsdælinga við bresku konungsfjölskylduna og vitneskjan um að á Gilá hafi verið sundlaug á tímum víkinga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir