Vetrarblíða í Skagafirði
Það væsir ekki um gesti og gangandi í Skagafirði í dag, enda rjómablíða, hiti um frostmark og vindur nánast í hlutlausum. Nú standa yfir Vetrarleikar í Tindastóli og samkvæmt heimildum ríkir góð stemning á skíðasvæðinu hvar fara fram skíðaleikar en í hádeginu var grillaður fiskur í fjalli í boði Fisk Seafood.
Í gær var veðrið ekki upp á sitt besta á svæðinu þó svo að það hafi víðast hvar verið verra á landinu en í Skagafirði. Í dag er veðrið sem fyrr segir stillt á skíðablíðu. Þannig gaf veðurstöðin á Sauðárkróksflugvelli kl. 14 í dag upp 3 gráðu frost, vind sem samsvaraði suðaustan 1 m/sek og vindur í mestu hviðu reyndist 3 m/sek. Það ætti að vera góður möguleiki að standa það af sér!
Skíðasvæðið er opið til klukkan 16 í dag.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.