Vesturbæingarnir lögðu Kormáksmenn í splunkunýtt parket
3. deildar lið Kormáks á Hvammstanga tók þátt í Maltbikarnum í körfubolta um helgina því á laugardag komu Íslands- og bikarmeistarar KR í heimsókn í íþróttahúsið á Hvammstanga en við það tilefni var nýtt parket vígt. Samkvæmt heimildum Feykis var troðfullt í húsinu og hin fínasta stemning en gestirnir úr Vesturbænum höfðu betur í leiknum.
KR-ingar sýndu heimamönnum þann sóma að mæta með alla sína bestu menn á Hvammstanga og buðu upp á smá sýningu. Vetubæingarnir höfðu spilað í Garðabænum kvöldið áður og máttu þar þola tap gegn Stjörnunni og hefði því verið viðbúið að helstu stjörnur KR-liðsins fengju að hvíla lúin bein.
Það var Kristófer Acox sem gerði fyrstu körfuna á nýja parketinu og svo tróð hann stuttu síðar. Hlynur Rafnsson gerði fyrstu körfu Kormáks og staðan 2-4 en þá skildu leiðir og staðan 3-36 að loknum fyrsta leikhluta og staðan í leikhléi var síðan 12-70. Lið heimamanna gerði tólf stig í þriðja leikhluta og tíu í þeim fjórða og lokatölur urðu 34-135 og kvöddu því heimamenn Maltbikarinn en bikarmeistararnir eru komnir áfram.
Stigahæstir í liði Kormáks voru Sveinn Óli Friðriksson með ellefu stig og Hlynur með níu stig. Guðmundur Jónsson hirti níu fráköst. Arnór Hermannsson, Kristófer Acox og Jalen Jenkins spiluðu mest í liði KR, 22 mínútur eða meira, en það var Brynjar Þór Björnsson sem kunni best við sig á parketinu, gerði sjö þrigga stiga körfur á ellefu mínútum og bætti við þremur vítum og endaði því með 24 tig. Næstur honum kom Andrés Hlynsson með 23 stig.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.