Vesturbæingar komu í dapurlega kveðjuferð í Síkið
Pavel leiddi í gærkvöldi sína gæðinga út í Síkið í leik gegn hans gömlu félögum í KR. Stórveldið svarthvíta má muna sinn fífil fegurri en gengi liðsins í vetur hefur verið vandræðalega lélegt og ljóst fyrir nokkru að liðið var fallið í 1. deild. Pavel brýndi fyrir sínum mönnum að mæta ekki værukærir til leiks því það kemur fyrir að fallnir drekar rísi upp á afturlappirnar fái þeir til þess tækifæri. Það fór svo að eftir nokkuð jafnan fyrsta leikhluta var mátturinn með Stólunum það sem eftir lifði leiks og vilji og varnarleikur Vesturbæinga í mýflugumynd. Lokatölur 115-63.
Stólarnir gerðu sitt til að halda stuðningsmönnum sínum við efnið þó lið KR hafi ekki virst hafa áhuga á að hjálpa til við það. Það gaf að líta hver glæsitilþrifin eftir önnur sem er jú vaninn þegar Taiwo okkar Badmus er í stuði. Sá hafði gaman.
Vesturbæingar náðu forystunni í leiknum eftir 49 sekúndur en Taiwo jafnaði og eftir það náðu Stólarnir yfirhöndinni. KR-ingar héngu í buxnastreng Stólanna út fyrsta leikhluta, staðan 17-8 eftir fimm mínútna leik en gestirnir minnkuðu bilið í fjögur stig áður en Geks smellti í þrist og staðan 27-20 að loknum fyrsta leikhluta. Lauk þá í raun þátttöku KR liðsins í fyrri hálfleik og Stólarnir tóku öll völd í öðrum leikhluta þar sem Keyshawn og Arnar fóru á kostum framan af en leikhlutann unnu Stólarnir 28-7 og staðan því 55-27 í hálfleik.
KR-ingar sprikluðu á móti straumnum í þriðja leikhluta og héldu nokkurn veginn í horfinu en Stólarnir voru aldrei í veseni og leiddu 80-47 fyrir lokakaflann. Í fjórða leikhluta var varla lífsmark með gestunum framan af og minnti leikurinn helst á tölvuleik þar sem annar spilarinn lann að nota túrbóið en hinn ekki. Eftir 17-0 kafla Stólanna var næstum því eins og Stólunum finndist nóg komið – næstum því – en Þorsteinn Finnboga sá til þess að gestirnir náðu að bæta við nokkrum stigum áður en yfir lauk.
Mæta Stólarnir liði Keflvíkinga í átta liða?
Það er kannski ekki mikið að marka svona leik þar sem annað liðið varla mætir til leiks. Leikmenn Tindastóls voru hinsvegar einbeittir og létu gestina aldrei slá sig út af laginu eða féllu niður á þeirra stig. Flestir ef ekki bara allir leikmenn Tindastóls stóðu sig með mikilli prýði í gærkvöldi. Taiwo hefur haft hægt um sig að undanförnu en nú styttist í úrslitakeppnina þannig að hann var alveg spinnegal í gær, gerði 31 stig í öllum regnbogans litum og tók sjö fráköst. Keyshawn hefur verið frábær að undanförnu og hélt áfram á sömu braut og gerði 24 stig. Arnar, Pétur og Raggi voru allir með tólf stig og Geks ellefu og léku skínandi vel um allt Síkið. Aapell Alanen var stigahæstur í liði KR með 15 stig, Williams 13 og Þorsteinn 11. Lið Tindastóls skilaði 150 framlagspunktum en lið KR 51 þannig að það er óþarfi að fara yfir aðra tölfræðipunkta að þessu sinni – Stólarnir voru yfir á öllum sviðum.
Það hlakkar sennilega í sumum yfir óförum margfaldra meistara KR en það verður pottþétt sjónarsviptir af þeim í efstu deild. Það er alltaf stemning og spenna sem fylgir viðureignum Stólanna og KR.
Nú styttist hins vegar í úrslitakeppnina og ljóst að Stólarnir verða í fimmta sæti þegar keppni í Subway-deildinni lýkur. Sem þýðir að við mætum liðinu í fjórða sæti í úrslitakeppninni og þó lengstum hafi litið út fyrir að Haukar yrðu andstæðingar Stólanna þar þá gerir lið Keflavíkur sterkt tilkall til fjórða sætisins með því að tapa ítrekað. Þeir eru jafnir Haukum að stigum en með betri innbyrðisstöðu. Keflvíkingar mæta hinsvegar Njarðvíkingum í lokaumferðinni en Haukar vonlausu liði Breiðabliks.
Áfram Tindastóll!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.