Verkefni Háskólans á Hólum hljóta næst hæstu úthlutunina úr Samstarfssjóði háskólanna

Í haust tilkynnti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um að settur yrði á laggir tveggja milljarða króna sjóð sem ætlað er að ýta undir öflugt samstarf allra háskóla á Íslandi. Sjóðinum yrði úthlutað í tveimur umferðum með einum milljarði í hvorri umferð. Alls bárust 48 umsóknir í sjóðinn fyrir 2.858 m.kr. í fyrri umferðinni og áttu allir sjö háskólarnir á Íslandi umsóknir í sjóðnum. Háskólinn á Hólum sendi inn sex umsóknir og var samstarfsaðili í öðrum ellefu umsóknum.

„Ég er mjög ánægð með þetta framtak Áslaugar Örnu, þarna var okkur ýtt út í samstal um samstarf sem er forsenda framþróunar og aukinna gæða íslenskra háskóla. Allir fóru að tala saman um hvernig hægt væri að auka samstarf milli háskóla. Frumkvæði, sjálfstæði og sveigjanleiki eru styrkleikar lítilla menntastofnanna og með það að vopni getur Háskólinn á Hólum staðist stærri og þungskreiðari stofnunum snúning. Mér fannst þetta koma vel í ljós í vinnunni sem sett var af stað í kringum Samstarfssjóð háskólanna í haust. Sem lítil stofnun náðum við að þétta raðirnar, skipuleggja okkur, setja okkur markmið og ná þeim á þeim skamma tíma sem háskólunum var settur til að skila inn til sjóðsins umsóknum um samstarfsverkefni,“ segir Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum.

Rétt í þessu lauk kynningu á úthlutun úr Samstarfssjóði háskólanna og niðurstöðurnar gefa til kynna að Háskólinn á Hólum er í mikilli sókn.

Í umsóknum til samstarfssjóðsins er einn háskóli skráður sem aðalumsækjandi og einn eða fleiri háskólar sem meðumsækjendur. Eins og búist var við fór meirihluti sjóðsins til umsókna þar sem stærsti háskóla landsins, Háskóli Íslands, er aðalumsækjandi. Síðan raðast úthlutanir til hinna háskólanna nokkurn veginn eftir stærð háskólanna, með einni undantekningu: Háskólinn á Hólum, sem er minnsti háskólinn á landinu, fékk næst hæstu upphæðina sem aðalumsækjandi. Einnig er Háskólinn á Hólum meðumsækjandi í fleiri verkefnum sem fengu brautargengi í þessari umferð.

„Þetta sýnir augljóslega styrk Háskólans á Hólum á meðal íslenskra háskóla en ekki síður þá virðingu sem Háskólinn á Hólum nýtur á meðal íslenskra háskóla. Alls staðar þar sem Háskólinn á Hólum bankaði upp á og bauð til samstarfs var því tekið fagnandi en einnig ber að nefna þann mikla áhuga annarra háskóla á að fá Háskólann á Hólum í samstarf. Ég er alsæl með árangurinn en mest þykir mér vænt um fólkið sem ég vinn með og þann mikla metnað og umhyggju sem það hefur fyrir Háskólanum á Hólum sem sýndi sig svo sannarlega í þessu umsóknaferli,“ segir Hólmfríður.

Verkefni Háskólans á Hólum sem hlutu styrk eiga það sameiginlegt að fjalla um uppbyggingu náms og/eða rannsókna innan fræðasviða skólans, í samstarfi við aðra háskóla, stofnanir og atvinnulífið. Öll fræðasvið skólans hlutu styrk.

„Þetta er svo sannarlega góður árangur bæði fyrir Háskólann á Hólum og samfélagið í Skagafirði í heild sinni. Það er ánægjulegt að sjá að viðleitnin til samstarfs er mikil og að ráðuneytið sjái mikilvægi þess að hafa öflugan háskóla í Skagafirði. Einnig er þetta mikilvægt í skref í áttina að uppbyggingu innviða á svæðinu, svo sem byggingu nýs húsnæðis fyrir fiskeldis- og fiskalíffræðideild skólans,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar.

Verkefnin sem um ræðir eru:

Sjálfbært eldi, ræktun og nýting lagarlífvera á Íslandi: Uppbygging náms og rannsókna - kr. 57.800.000
Meðumsækjendur: Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskólasetur Vestfjarða, Hafrannsóknastofnun, Matís og Náttúruminjasafn Íslands.

Akademía íslenska hestsins - kr. 21.900.000
Meðumsækjendur: Landbúnaðarháskóli Íslands og Tilraunastöð Háskóla Íslands.

Sameiginleg námslína í ferðamálafræði – kr. 21.400.000
Meðumsækjendur: Háskóli Íslands, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Samtök ferðaþjónustunnar.

„Öll verkefnin byggja undir starfsemi skólans og efla hann til framtíðar. Það gildir einnig um verkefnin sem hlutu ekki styrk og munum við finna aðrar leiðir til að koma þeim í framkvæmd. Með þessum aðgerðum tel ég raunhæft að eftir 10 ár verðum við komin með 1000 nemendur við Háskólann á Hólum,” segir Hólmfríður að lokum.

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir