Verður seint kallaður meistarakokkur
Það er körfuboltastjarna Skagafjarðar, Axel Kárason, sem var matgæðingur vikunnar í tbl 10 á þessu ári. En hann er ekki bara lunkinn með boltann hann er einnig dýralæknir á Dýraspítalanum Glæsibæ og situr í sveitarstjórn Skagafjarðar fyrir hönd framsóknarmanna. Hann býr í Vík í Staðarhreppi ásamt kærustunni, Leana Haag, og eru þau undir verndarvæng lénsherrans og landeigandans Ómars á Gili.
„Það verður seint sagt að ég kallist einhver meistarakokkur, en á námsárunum í útlöndum var ég orðinn býsna lunkinn við að elda hakk, reyndar var alltaf meira hugsað um magnið heldur en gæðin í þá daga. Til að verða mér ekki algjörlega til skammar leitaði ég mér aðstoðar og hér koma uppskriftir sunnan úr Ölpunum sem eru vinsælar á heimilinu,“ segir Axel.
AÐALRÉTTUR
Roastbeef
1,2 kg roastbeefsteik eða í þá áttina, t.d. lund.
2 msk. olía.
4 kvistir af rósmarín eða 2 msk. af þurrkaðri rósmarín.
60 g smjör.
salt & pipar
Aðferð: Takið roastbeefið úr kæli einni klukkustund áður. Hitið ofninn, með eldföstu móti, í 80°C (með undir og yfir). Hitið pönnuna með olíunni á hæstu stillingu. Þegar olían er heit, þ.e.a.s. fljótandi eins og vatn, er steikin sett á pönnuna. Steikið allar hliðar í u.þ.b. þrjár mínútur þar til kjötið er orðið gullbrúnt. Varast skal að gata kjötið þegar því er snúið til að koma í veg fyrir að kjötsafi sleppi. Takið eldfasta mótið úr ofninum og setjið kjötið í það. Kryddið með salti og pipar. Kjöthitamæli er stungið í þar sem kjötið er þykkast þannig að odd-urinn sé nokkurn veginn í miðri steik. Setjið smjörið og rósmarín-kvistana á kjötið og fatið svo sett í miðjan ofninn sem er ávallt hafður á 80°C. Eftir um það bil tvær og hálfa klukkustund ætti roastbeefið að hafa náð 55°C kjarnhita. Takið kjötið úr ofn-inum, skerið og berið fram strax. Létt tartarsósa og bakaðar kartöflur passa vel með steikinni, eða brauð.
MEÐLÆTI
Tartarsósa
200 g majónes
1 harðsoðið egg
1 súr gúrka
1/4 laukur
1 msk. steinselja
salt & pipar eftir þörfum
Aðferð: Skerið eggið og gúrkuna í teninga, saxið laukinn smátt, saxið steinseljuna. Blandið öllu út í majónesið og kryddið eftir smekk.
Verði ykkur að góðu
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.