Verðkönnun á matvöruverði í Skagafirði
Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun í matvöruverslunum í Skagafirði og víðsvegar á landinu í samstarfi við Ölduna, stéttarfélag, Einingu Iðju og AFL-Starfsgreinafélag og Drífanda stéttarfélag, þann 27. október sl. Þegar verð í verslunum á Sauðárkróki er borið saman við verð í sambærilegum þjónustuverslunum í könnunninni, kemur í ljós að verslanir á Sauðárkróki eru að meðaltali með lægra verð á helmingi þeirra vara sem skoðaðar voru.
Minnstur verðmunur er á mjólk og forverðmerktum vörum eins og osti og áleggi. Grænmeti sem skoðað var í könnunninni var í öllum tilvikum að meðaltali óódýrara á Sauðárkróki en í öðrum sambærilegum verslunum.
Meðalverð á drykkjarvörum í könnuninni var hærra á Sauðárkróki, en hjá sambærilegum verslunum víðs vegar um landið. Einnig er mikill verðmunur á kjöti, frosið lambalæri var t.d. að jafnaði 23% ódýrara á Sauðárkróki en ferskar kjúklingabringur 38% dýrari á Sauðárkróki en í öðrum sambærilegum verslunum könunninni.
Sjá yfirlitstöflu yfir verslanir og vörur í könnuninni á vef ASÍ
Borgar sig að keyra til Akureyrar?
Þegar verðlagseftirlit ASÍ bar saman innkaup á Sauðárkróki og þeim lágvöruverðsverslunum sem kannað var verð í á Akureyri reyndist 32% verðmunur á hæsta og lægsta verði í matvörukörfunni. Vörukarfan var ódýrust í Bónus þar sem hún kostaði kr. 9.161 en dýrust í Skagfirðingabúð kr. 12.084, verðmunurinn er 2.923 krónur.
Af einstökum liðum í vörukörfunni var minnstur verðmunur á osti (5%) og mjólk (7%). Mestur verðmunur var á ódýrustu fáanlegu tegund af brúnum hrísgrjónum, sem voru ódýust í Bónus 198 kr/kg en dýrust í Skagfirðingabúð 548 kr/kg., verðmunurinn er 177%.
Það er því full ástæða fyrir neytendur í Skagafirði að vega það vel og meta hvort það standi undir kostnaði að keyra langar vegalengdir til að versla í matinn.
Sjá nánari upplýsingar um vörukörfu í töflu á vef ASÍ.
Í könnuninni var skráð niður hilluverð vara sem er það verð er neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni, að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Skráð var kílóverð á vöru vegna þess að mjög mismunandi er hvaða pakkastærðir eru seldar í hverri verslun fyrir sig. Þetta er gert til þess að auðvelda verðsamanburð.
Könnunin var gerð í eftirtöldum verslunum; Bónus Akureyri, Krónunni Vestmannaeyjum, Nettó Akureyri, Hagkaup Skeifunni, Fjarðarkaupum Hólshrauni, Nóatún, Hringbraut 121, Samkaup – Úrval Egilsstöðum, Ellefu ellefu Vestmannaeyjum, Tíu ellefu, Borgartúni, Samkaup Strax, Suðurveri, Skagfirðingabúð og Hlíðarkaupum.
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.