Vel mætt í körfuboltaskóla Norðurlands vestra

Áhugasamir körfuboltakrakkar a Bönduósi hlusta á þjálfarann, Helga Frey en með honum í þjálfarateyminu eru þau Hannes Ingi Másson og Linda Þórdís Róbertsdóttir. Mynd af FB.
Áhugasamir körfuboltakrakkar a Bönduósi hlusta á þjálfarann, Helga Frey en með honum í þjálfarateyminu eru þau Hannes Ingi Másson og Linda Þórdís Róbertsdóttir. Mynd af FB.

Körfuboltaskóli Norðurlands vestra var settur á laggirnar fyrir skömmu að tilstuðlan Helga Freys Margeirssonar, hinum margreynda leikmanns Tindastóls. Skólinn er sérstaklega miðaður að krökkum sem búa á svæðinu frá Skagaströnd að Hvammstanga. Um helgina voru námskeið bæði á Hvammstanga og á Blönduósi og var þátttaka góð. „Verkefninu hefur verið tekið mjög vel af öllum og eftirspurnin eftir körfuboltanum er klárlega til staðar,“ segir Helgi Freyr.

Að sögn Helga Freys hafa komið um 50 krakkar, stelpur og strákar á aldrinum 8-16 ára á þau þrjú námskeið sem Körfuboltaskóli Norðurlands vestra hefur haldið. „Fyrst var haldið prufunámskeið á Blönduósi og tókst það svo vel að það var strax skellt í tvö til viðbótar helgina eftir, annað fyrir hádegi á Hvammstanga og hitt eftir hádegi á Blönduósi. Viðbrögð foreldra og krakkanna hafa alls staðar verið jákvæð og krakkarnir tekið körfuboltanum vel.“ Helgi segir mikinn efnivið vera á þessu svæði og áhuginn leynir sér ekki hjá krökkunum. „Þessi blanda með hnitmiðaðri þjálfun leiðir bara til til árangurs. Nú er verið að skoða hvernig þetta verkefni getur haldið áfram til að ýta enn undir áhuga krakkanna á körfuboltanum.“

Helgi segist líta svo á að lið meistaraflokks Tindastóls í körfu sé lið Norðurlands vestra. „Í framtíðinni vil ég sjá krakka af þessu svæði koma í það lið í meira mæli,“ segir Helgi Freyr kampakátur eftir vel heppnaða körfuboltahelgi.

Fylgjast má með starfsemi skólans á Facebook, Körfuboltaskóli Norðurlands vestra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir