Vel heppnaður opinn dagur hjá Markviss
Skotfélagið Markviss á Blönduósi hélt að vanda opinn dag á Húnavöku þar sem gestum gafst kostur á að kynna sér starfsemi félagsins. Margir litu við og segir á Facebooksíðu Markviss að á annað hundrað manns hafi sótt félagið heim.
Indriði Ragnar Grétarsson, formaður Bogveiðifélags Íslands, mætti á svæðið og kynnti bogfimi fyrir áhugasömum. Í framhaldi af opnum degi var hið árlega Hölskuldsmót haldið. Þar voru skotnir tveir hirngir og skipt í A og B flokk eftir fyrri hring. Í B-flokki varð Jón Brynjar Kristjánsson hlutskarpastur og Sigurður Pétur Stefánsson í öðru sæti. A- flokkinn vann Brynjar Þór Scheel Guðmundsson, Ásgeir Þröstur Gústavsson varð annar og Kristvin Máni Kristófersson í þriðja sæti.
Framundan hjá félaginu er að halda Norðurlandsmeistaramótið í Skeet 2018 en skotíþróttafélögin á Norðurlandi halda það til skiptis. Verður það haldið nú um komandi helgi, 28.-29. júlí. Mótið er tvískipt, annars vegar keppni um titilinn Norðurlandsmeistari karla/kvenna og ræður þar skor í undankeppni úrslitum, hins vegar NLM-OPEN þar sem keppendum er skipt í A og B flokk eftir fyrri keppnisdag. Að lokinni undankeppni fara sex efstu keppendur í hvorum flokki í úrslit. Veitt eru verðlaun fyrir þrjú efstu sæti í báðum flokkum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.