Vel heppnaður Heimir
Karlakórinn Heimir troðfyllti íþróttahúsið í Varmahlið á velheppnaðri þrettándagleði kórsins. Þemað að þessu sinni var helgað Rússlandi. Fyrir hlé var dagskrá með þekktum kórverkum í fyrirrúmi en eftir hlé slógu menn á léttari strengi.
Það var óperusöngkonan Helga Rós sem að öðrum ólöstuðum sló í gegn og átti hún að sögn hugi og hjörtu áhorfenda. Í hléi steig ræðumaður kvöldsins, Jón Björnsson, pistlahöfundur á stokk og fór meðal annars yfir samskipti Húnvetninga og Skagfirðinga með hárfínu háði.
Á heimasíðu kórsins kemur fram að eftir hlé hafi verið fluttir gamanleikurinn "Rauðstakkar í Rússlandsferð" þar sem sögumaður rakti ævintýri kórfélaga í Rússlandi með aðstoð þeirra Ingimars Jónssonar og Guðbrandar Guðbrandssonar, sem brugðu sér hiklaust í gerfi valinkunnra kórmanna. Kórinn flutti úrval rússneskra laga á viðeigandi stöðum í handritinu og kynnti meðal annars rússneska útgáfu af "Undir Bláhimni" Lokalag sýningarinnar var svo hið þekkta Kalinka, þar sem stórtenorinn "Arisander Kotroskin" fór á kostum, en sprengdi sig og þurfti hjálp aðstoðarmanna við lokatónana.
Viðburðurinn var styrktur af Menningarráði Norðurlands vestra
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.