Veiði í Miðfjarðará mun betri en í fyrra en Blanda döpur
Húnahornið segir frá því að laxveiði sé tekin að glæðast. Samkvæmt veiðitölum á vef Landssambands veiðifélaga er Miðfjarðará nú orðin fjórða aflahæsta laxveiðiá landsins en nýjustu tölur, sem uppfærðar voru í fyrrakvöld, hafa veiðst 286 laxar í ánni sem er talsvert meira en á sama tíma í fyrra þegar um 168 laxar höfðu veiðst.
Í fréttinni segir að mest hafi veiðst í Þjórsá – Urriðafossi af helstu laxveiðiám á landinu sem af er sumri eða 608 laxar.
„Af helstu laxveiðiám í Húnavatnssýslum þá hafa veiðst 135 laxar í Laxá á Ásum, 93 í Vatnsdalsá, 90 í Víðidalsá, 49 í Blöndu, 25 í Hrútafjarðará og tveir í Svartá. Almennt er veiði meiri nú en á sama tíma og í fyrra nema í Blöndu. Einungis hafa veiðst 49 laxar í ánni, eins og áður sagði, en á svipuðum tíma í fyrra voru þeir orðnir um 140 talsins. Laxveiði í Blöndu í fyrra var með allra lélegasta móti en ekki veiddust þá nema 359 laxar og leita þarf aftur til ársins 1994 til að finna jafn lága tölu yfir fjölda veiddra laxa,“ segir á Húna.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.