Vaxtarsprotar í Skagafirði og Eyjafirði

Hópur fólks á Norðurlandi hefur á undanförnum mánuðum tekið þátt í verkefninu Vaxtarsprotum. Þátttakendur vinna allir að ákveðnum viðfangsefnum sem lúta að atvinnusköpun í heimabyggð. Um er að ræða fjölbreytt viðfangsefni m.a. á sviði iðnaðar og ferðaþjónustu. 16 Vaxtarsprotar bætast í hópinn.

Vaxtarsprotar er stuðningsverkefni sem hefur það að markmiði að hvetja og styðja við fjölbreytta atvinnusköpun í sveitum landsins. Verkefnið, sem er á vegum Impru á Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, hóf göngu sína á árinu 2007, en hefur síðan komið til framkvæmdar víða um land.

Framkvæmd verkefnisins á Norðurlandi var unnin í samvinnu við Leiðbeiningarmiðstöðina í Skagafirði, Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi Vestra og Búgarð Ráðgjafaþjónustu á Norðausturlandi. Þátttakendum í verkefninu hefur staðið til boða margvíslegur stuðningur. Boðið hefur verið upp á námskeið um stofnun og rekstur fyrirtækja, einstaklingsbundna leiðsögn, auk þess sem ýmsir styrkjamöguleikar hafa verið kynntir.

Viðfangsefni þátttakenda

Þátttakendurnir sem nú luku námskeiði á vegum Vaxtarsprotaverkefnisins voru 18 talsins, en samtals unnu þeir að 16 verkefnum. Viðfangsefni þátttakenda voru eftirfarandi að þessu sinni:

Skagafjörður  
Þátttakendur Heiti verkefnis
Helga Þórðardóttir, Mælifellsá, 560 Varmahlíð Mælifellsá - lífrænar sauðfjárafurðir
Kristín Jónsdóttir, Sauðárkróki Á Sturlungaslóð í Skagafirði
Sigurður Hansen, Kringlumýri, 560 Varmahlíð Kakalastofa
Kristín Björg Ragnarsdóttir, Sauðárkróki Villt dýr á Íslandi
Þórey Helgadóttir, Hólum, 551 Sauðárkróki Hrosshagi - hestamiðstöð
Þórey Jónsdóttir, Keflavík, 551 Sauðárkróki Barnagull
Elín Sigurðardóttir og Magnús Óskarsson, Sölvanes, 560 Varmahlíð Vetrargestir – bókmenntadvöl í Sölvanesi
   
Eyjafjörður
Þátttakendur Heiti verkefnis
Aðalsteinn Hallgrímsson, Garði, 601 Akureyri Fjósloftið - kaffihús - ferðamannafjós
Bjarni Thorarenssen, Miðbraut 4b, 630 Hrísey Hrísiðn ehf - Hrísey heilnæm og heillandi
Brynja Birgisdóttir, Öngulsstöðum 3, 601 Akureyri Hugarafl - heilsan þín heildrænar heilsulausnir
Einar Kr. Brynjólfsson, Miðsamtúni, 601 Akureyri Samtyne - Minna er meira
Einar Örn Aðalsteinsson, Garði, 601 Akureyri Nautakjöt.is
Halldór Hrafn Gunnarsson, Rauðá, 645 Húsavík Fjárdráttur sundurdráttargangar fyrir sauðfé
Lenka Uhrová, 620 Dalvík Rökstólar - samvinnumiðstöð sjálfbærni og samvinna
Valbjörg Fjólmundsdóttir, 600 Akureyri Náttúrulist                                         hugmyndavinna - verktaka

Þátttakendur í Vaxtarsprotum í Skagafirði og Eyjafirði ásamt viðfangsefnum þeirra (að tveimur undanskildum sem óska ekki eftir fjölmiðlaumfjöllun um sín verkefni svo stöddu).

Á annað hundrað þátttakendur frá upphafi

Frá því að Vaxtarsprotaverkefnið hóf göngu sína hafa 147 manns lokið námskeiðum á vegum verkefnisins að þátttakendum frá Norðurlandi meðtöldum. Þessir aðilar hafa unnið að 114 verkefnum í allt. Meiri hluti þessar verkefna eru ný af nálinni, en einnig hefur verið þó nokkuð um að forsvarsmenn starfandi fyrirtækja hafi nýtt sér verkefnið til frekari framþróunar á sinni starfsemi.

Uppskeruhátíð

Þann 11. júní næstkomandi verður haldin uppskeruhátíð á vegum Vaxtarsprotaverkefnisins. Markmið hátíðarinnar er að vekja athygli á verkefnum þeirra sem tekið hafa þátt í verkefninu í Skagafirði og Eyjafirði og einnig að skapa formlega umgjörð um lok verkefnisins á þessum vetri. Hátíðin verður haldin í sal Þelamerkurskóla og hefst kl. 16:00.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir