Varaformaður fjárlaganefndar styður fluttning heilbrigðisstofnanna til sveitarfélaga
Kristján Þór Júlíusson, varaformaður fjárlaganefndar, styður heilshugar þá hugmynd að færa nærþjónustuna alfarið til sveitafélaganna. Þetta sagði hann á fjölmennum borgarafundi sem haldinn var á sal FNV nú fyrir stundu.
Sagði Kristján hafa þessa skoðun sökum eigin reynslu sem sveitarstjórnarmanns. Fundurinn var fjölmennur og voru ræðumenn sammála um að nú væri komið nóg og tími til að heimamenn spyntu við fótum.
Fundarmenn samþykktu allir sem einn með háværu lófaklappi eftir farandi ályktun: Borgarafundur, haldinn á Sauðárkróki 9. janúar 2009, mótmælir harðlega áformum heilbrigðisráðherra um að sameina Heilbrigðisstofnunina Sauðárkróki öðrum heilbrigðisstofnunum á Norðurlandi og átelur jafnframt vinnubrögð hans í málinu.
Fundurinn tekur jafnframt undir þá ályktun sem starfsmenn Heilbrigðisstofnunarinnar Sauðárkróki sendu frá sér í gær þar sem m.a. er spurt um tilgang og rök slíkrar sameiningar. Óljóst er hver þjóðhagslegur sparnaður verður af sameiningunni, en augljóst er að hún mun auka enn frekar á kostnað íbúa landsbyggðarinnar sem þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda.
Bent er á að Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki hefur um langt árabil verið vel rekin, bæði faglega og fjárhagslega. Það skýtur því skökku við að hún skuli eiga að sæta afarkostum og niðurskurði, að því er virðist til þess eins að bæta rekstur annarra stofnana.
Fundurinn styður hugmyndir Sveitarstjórnar Skagafjarðar um að yfirtaka rekstur Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki og skorar á ráðherra að setjast nú þegar að samningaborði við sveitarstjórn um þá yfirtöku.
Fundurinn hvetur ráðherra til að skoða betur áform sín og virða lagaákvæði sem kveða á um að samráð skuli haft við heimamenn um sameiningar heilbrigðisstofnana. Jafnframt skorar fundurinn á ráðherra að heimsækja Skagafjörð og kynna sér af eigin raun starfsemi Heilbrigðisstofnunarinnar á Sauðárkróki og eiga um leið samtal og samráð við íbúa Skagafjarðar.
Ályktunin ásamt undirskriftalista sem liggja mun frammi á fjölförnustu stöðum í Skagafirði um helgina verður send heilbrigðisráðherra.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.