Var geld en samt ekki!
Á fréttavefnum Trolli.is segir að Haraldur Björnsson, jafnan nefndur Halli Bó, sem er með fjárbúskap “suður á firði”, eigi á sem nefnist Snjólaug og sé fjögurra vetra gömul. Það er nú ekkert fréttnæmt í því nema fyrir þær sakir að Snjólaug hefur tvisvar borið einlembing en þegar hún var sett í sónar sl. vetur kom í ljós að hún væri geld.
Í göngum á Siglunesi í lok september sáu svo gangnamenn Snjólaugu með nýborið lamb. En því miður náðist ekki að smala þeim með hópnum því Snjólaug tók sig út úr hópnum. Þegar gengið var aftur 14. október misstu gangnamenn hana aftur frá sér með lambið en í þetta skiptið voru kindurnar teknar sjóleiðina til Siglufjarðar á Örkinni hans Gunna og því mikil sorg yfir því að þurfa að skilja Snjólaugu eftir með lambið.
Síðastliðinn sunnudag bar svo til tíðinda þegar Halli fór í fjárhúsið því þá var Snjólaug mætt með litlu gimbrina sína sem vildu ólmar fá að komast inn í fjárhúsin. Til mikillar gleði hjá Halla og fjölskyldu hafði Snjólaug tekið upp á því að labba heim því það er betra að vita af þeim í Bóhem, fjárhúsi Halla Bó, en á flandri um fjöllin á komandi vetri.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.