Valsmenn náðu í sigur í naglbít

Frá Hlíðarenda í gær.  MYND: DAVÍÐ MÁR
Frá Hlíðarenda í gær. MYND: DAVÍÐ MÁR

Í gærkvöldi mættust Valur og Tindastóll í fyrsta leik einvígis liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta. Stuðningsmenn beggja liða létu sig ekki vanta en það þurfti víst að magna upp stemninguna Valsmegin með græjum í tilraun til að yfirgnæfa Grettismenn og aðra með taktföst Tindastólshjörtu. Leikurinn reyndist hin mesta skemmtun nema kannski fyrir þá sem þola illa spennu og læti. Það voru hins vegar heimamenn í Val sem náðu í nauman sigur, 80-79, eftir að staðan í hálfleik hafði verið 37-34, og mæta því til leiks í Síkið nk. mánudag með mikilvægan sigur í mælaborðinu.

Tólf sinnum skiptust liðin á um að hafa forystu og mesti munurinn var átta stig í þriðja leikhluta en Stólarnir voru fljótir að laga það. Lokamínúturnar voru æsispennandi þar sem varnir liðanna reyndust sterkar. Kristófer Acox kom Val þremur stigum yfir með vítaskoti, 80-77, en Siggi minnkaði muninn í eitt stig þegar 40 sekúndur voru eftir. Pablo Bertone átti að galdra fram eitthvað gómsætt fyrir Val í þeirra lokasókn en missti boltann út af og Stólarnir fengu boltann fyrir eina lokasókn. Sóknin endaði á skoti frá Taiwo Badmus úr vinstra horninu – þar hafði hann ekki klikkað í síðari hálfleiknum – en skotið var slakt. Bess náði boltanum liggjandi í gólfinu og kom honum á Sigga sem varð að taka erfitt skot sem var ekki langt frá því að falla rétt ... en boppaði af hringnum og Valsmenn blökuðu boltanum út af um leið og leiktíminn rann út.

Annar leikur liðanna verður í Síkinu nú á mánnudagskvöldið og hefst kl. 20:15. Pressan er nú á Stólunum að ná í sigur og ef eitthvað er þá ætti leikurinn í gær að gefa mönnum sjálfstraust því leikurinn var hnífjafn og annað liðið hafði örlítið meiri heppni með sér. Stólarnir unnu til dæmis þrjá leikhluta af fjórum; alla með einu stigi en Valsmenn unnu einn leikhluta með fjórum stigum! Þar lá hundurinn grafinn.

Bæði lið spiluðu fast en Stólarnnir fengu villurnar

Lið Vals er vel mannað enda einn Tindastólsmaður meðal leikmanna; Pálmi Geir Jónsson. Rétt eins og hjá Stólunum spila þrír erlendir leikmenn með liðinu; þeir Jacob Calloway, Pablo Bertone og Callum Lawson. Þar fyrir utan eru fjórir landsliðsmenn; Kári Jóns, Kristófer Acox, Pavel og Hjálmar Stefáns. Minnir pínu á rimmur Stólanna og KR hér í denn en þá þótti nú stuðnningsmönnum Stóla sem landsliðsmenn mótherjanna nytu helst til of mikillar virðingar hjá dómurum. Sú verður vonandi ekki raunin að þessu sinni en sérfræðingar í setti á Stöð2Sport furðuðu sig þó á því, þegar farið var yfir leikinn í gær, að í leik þar sem bæði lið spiluðu harða vörn þá fengu Stólarnir dæmda á sig 21 villu en Valsmenn 12.

Taiwo Badmus var stigahæstur í liði Tindastóls. Eftir fyrri hálfleik þar sem liðið hitti illa utan 3ja stiga línunnar þá skellti kappinn í fimm slíka í síðari hálfleik og endaði með 25 stig og átta fráköst. Zoran skilaði 17 stigum, Siggi var með 12 stig og tók sjö fráköst líkt og Bess sem gerði tíu stig rétt eins og Arnar. Í liði Vals voru Acox og Lawson stigahæstir með 19 stig en Kristófer tók 16 fráköst í leiknum.

Nú er bara spurning hvort einhver nennir að mæta í Síkið og styðja Stólana til góðra verka? Það þarf sennilega ekki að hafa áhyggur af því. „Skagafjörður stendur alltaf sína vakt með prýði! Má ég heyra...“

Tölfræði leiks á vef KKÍ >

P.S. Hvaða rugl er það að lagið góða sé ekki komið á Vinsældalista Rásar2 (ef einhver veit hvað það er)?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir