Ungt fólk til athafna
Hjá Vinnumálastofnun hefur verið hrundið af stað verkefninu Ungt fólk til athafna. Markmið þess er að á næstu mánuðum verði ungt atvinnulaust fólk á aldrinum 16 – 24 ára komið í vinnu eða nám og stefnt að því að 1. apríl verði þau öll þátttakendur á vinnumarkaði eða í námstengdu úrræði.
Með auknu atvinnuleysi sem Norðurland vestra fer ekki varhluta af, þó það hafi verið minna hér en víðast annars staðar, er mjög mikilvægt að skapa úrræði fyrir ungt atvinnulaust fólk. Rannsóknir sýna að meiri hætta er á því að atvinnuleysi hafi neikvæð áhrif á daglegt líf ungs fólks en þeirra sem eldri eru og því er farið af stað með þetta sérstaka átak fyrir aldurshópinn.
Vinnumálastofnunar á Norðurlandi vestra hefur leitað til sveitarfélaga, atvinnurekenda og stofnana um samastarf vegna þessa verkefnis og fengið mjög góðar viðtökur sem hún vill þakka hér. Vona starfsmenn stofnunarinnar að áframhald verði á því góða samstarfi og að fleiri bætist í hópinn og hjálpi til við að búa til störf fyrir unga fólkið.
Ungt fólk til athafna fór af stað hér á Norðurlandi vestra í lok janúar og er afar ánægjulegt að geta sagt frá því að nær allt það unga fólk 16 – 24 ára sem þá var skráð í atvinnuleit, eða yfir 90% þeirra rúmlega 40 einstaklinga sem voru skráðir þá, eru nú komnir með eitthvert úrræði, annað hvort nám eða starf. Nýir ungir atvinnuleitendur hafa svo á móti komið inn hjá Vinnumálastofnun síðan þá og er nú unnið að því að finna viðeigandi vinnumarkaðsúrræði fyrir hvern og einn.
Til viðbótar við þessi starfstengdu úrræði hefur stofnunin staðið fyrir námskeiðum sem auðvelda atvinnuleitendum að finna leiðir fyrir sig, boðið þeim upp á viðtöl við ráðgjafa og gert nokkra námssamninga. Framundan er námskeið í Skagafirði sem byggir á námsskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins sem kallast „Sterkari starfsmaður“ og verður það haldið á vegum Farskólans. Fleiri námskeið munu einnig standa til boða og verða þau kynnt þegar þar að kemur.
Að lokum bendum við áhugasömum á að kynna sér vinnumarkaðsúrræði Vinnumálastofnunar á vefnum www.vinnumalastofnun.is. Vinnumarkraðsúrræðin standa að sjálfsögðu öllum atvinnuleitendum til boða að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og höfðu samráði við starfsfólk Vinnumálastofnunar. Frekari upplýsingar er að fá í síma 455 4200 eða á nordurland.vestra@vmst.is.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.