Unglingalandsmót UMFÍ í Þorlákshöfn um helgina

Keppni í bogfimi verður fjölmenn í ár. Mynd: UMFÍ.
Keppni í bogfimi verður fjölmenn í ár. Mynd: UMFÍ.

Unglingalandsmót UMFÍ hefst í dag í Þorlákshöfn. Þetta er í 21. skiptið sem mótið er haldið og hefur það verið haldið um verslunarmannahelgi ár hvert frá árinu 2002. Þátttakan er gríðarlega góð nú um helgina. 

Unglingalandsmót UMFÍ er sannkölluð fjölskylduhátíð. Boðið er upp á fjölda keppnisgreina fyrir 11 – 18 ára börn og ungmenni og allir á þessum aldri geta skráð sig til leiks. Á Unglingalandsmótinu eru 22 greinar í boði. Körfubolti, knattspyrna og frjálsar íþróttir eru sem fyrr vinsælustu greinarnar. UMFÍ hefur líka verið að bjóða upp á nýjar greinar sem hafa slegið algjörlega í gegn. Kökuskreytingar voru í boði á Unglingalandsmóti UMFÍ í fyrsta sinn á síðasta ári og kom ásókn í greinina öllum á óvart. Vinsældirnar eru gríðarlegar í ár og ljóst að keppnin um best skreyttu kökuna verður hörð og skemmtileg í ár. Að sama skapi er mikil þátttaka í strandhandbolta og bogfimi. Ef heldur sem horfir verður keppni í bogfimi sú fjölmennasta sem sést hefur á Íslandi. 

Margt verður í boði fyrir börn og fullorðna frá morgni til kvölds, m.a. flugeldasýning, fótboltabilljard, fótboltamót barna 10 ára og yngri, fótboltapanna, fótbolti 3:3, frjálsíþróttaleikar barna, gönguferðir, kvöldvökur, tónleikar með besta tónlistarfólki landsins, ringó, sandkastalagerð, sundleikar barna, hestar teymdir undir börnum, 50m þrautabraut og margt fleira. Öll afþreying er opin og án endurgjalds.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir