Ungir og eldri heimamenn taka slaginn með Stólunum

Dagur formaður ásamt einvalaliði heimamanna. MYND AF FB-SÍÐU TINDASTÓLS
Dagur formaður ásamt einvalaliði heimamanna. MYND AF FB-SÍÐU TINDASTÓLS

Á Facebook-síðu körfuknattleiksdeildar Tindastóls segir frá því að gengið hefur verið frá samningum við öflugan flokk ungra og sprækra heimamanna um að leika með Stólunum á komandi leiktíð. Þetta eru þeir Helgi Rafn Viggósson, Orri Már Svavarsson, Veigar Örn Svavarsson, Eyþór Lár Bárðarson, Reynir Barðdal og Axel Kárason.

Þessir kappar hafa nú flestir komið við sögu áður með meistaraflokki Stólanna nema hvað Reynir Barðdal kemur upp úr yngri flokka starfinu en kappinn spilaði körfubolta í Ameríkuhreppi síðasta vetur ef Feykir er ekki í bullinu. Orri Már, Veigar Örn og Eyþór Lár voru með liðinu síðasta vetur og eru ungir og sprækir og síðan eru það Axel og Helgi Rafn sem eru sprækir en minna ungir.

Í tilkynningunni segir að Dagur Þór Baldvinsson, formaður kkd. Tindastóls sé spenntur fyrir veturinum. „Við leggjum mikla áherslu á að byggja á sterkum grunni heimamanna og erum stolt af þessum magnaða hóp. Framundan er án efa stórskemmtilegt tímabil og vil ég hvetja alla stuðningsmenn til að mæta vel á leiki í vetur, það er hvergi skemmtilegra að vera en í Síkinu þegar góð stemming myndast.“

Það gæti hugsanlega eitthvað verið til í þessu hjá Degi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir