UMSS fjölmennti á Landsmót UMFÍ

Ungmennasamband Skagafjarðar átti fjölda keppenda á Landsmóti UMFÍ sem haldið var um helgina og stóðu sig með stakri prýði. Auk hinna hefðbundnu frjálsíþróttagreina var einnig keppt í óhefðbundnum íþróttagreinum sem og boltaíþróttum.

 

Feykir skoðaði árangur keppenda UMSS í hinum ýmsu greinum og má telja það helsta upp.

Blakliðið sem skipað var konum í Krækjunum, náði 3. sæti og fengu 9 stig af 12 mögulegum og gaf það UMSS alls 80stig.

 

Briddssveitin endaði í 11. sæti sem því miður gefur ekki stig í heildarkeppnina.

 

Í dráttavélaakstri náði Jón Gunnar Vésteinsson öðru sætinu og fékk 9 stig fyrir vikið, Bessi Freyr Vésteinsson landaði 6. sætinu og fékk 5 stig fyrir það og samtals höluðu þeir 14 stig fyrir UMSS.

 

Í golfi náði sveit UMSS 4. sætinu hjá körlunum og 70 stig en konurnar gerðu betur og enduðu í 3. sæti með 80 stig og samtals gerir það 150 stig og 3. sætið í greininni.

 

Í gróðursetningu landaði Erlingur Garðarsson gullinu og er því Landsmótsmeistari og fyrir vikið fékk UMSS 10 stig.

 

Í knattspyrnunni endaði lið UMSS í 5.sæti eftir vítaspyrnukeppni í úrslitaleik við HSK

 

Í hestaíþróttum var það helst að í tölti enduðu Magnús Bragi Magnússon og Punktur frá Varmalæk í 7. sæti með 4 stig, Mette Mannseth og Háttur frá Þúfum fengu 2 stig fyrir 9. sætið og Baltasar K Baltasarsson og Brýmir frá Bakka enduðu í 10. sæti og fengu 1 stig sem gerir 7 stig úr þessari grein fyrir UMSS.

 

Í fjórgangi náðu þeir Magnús Bragi  og Punktur frá Varmalæk í 3 stig og 8. sætið og í  fimmgangi náðu Mette Mannseth og Háttur frá Þúfum 2. sætinu og kræktu þar með í 9 stig, Magnús Bragi og Dögg frá Íbishóli náðu 8.sætinu og 3 stig og Baltasar K Baltasarsson og Seyðir frá Hafsteinsstöðum enduðu í 10. sæti og uppskáru 1 stig.

 

Í gæðingaskeiði náði Mette Mannseth öðru sætinu en ekki voru upplýsingar um á hvaða hrossi hún keppti en 9 stig komu þar.  Magnús Bragi og Dögg frá Íbishóli skeiðuðu í 10. sætið og 1 stig í pottinn þar og í heildina fékk UMSS 33 stig úr hestagreinunum.

 

Körfuboltaliðið varð í 7. sæti og uppskar 45 stig fyrir vikið.

 

Í pönnukökubakstri endaði Helga Þórðardóttir í 3.sæti og lagði 8 stig í púkkið

 

Í siglingakeppni Optimist B náði Ásgeir Gústavsson 5.sætinu og fékk 6 stig. Í 7. sæti  endaði  Þorsteinn Muni Jakobsson og krækti í 4 stig.

 

 Sigurjón Þórðarson sigraði sjósundið hjá körlum á tímanum 29,57mín og Sarah Jane Emily Caird synti sig í 2. sætið hjá konunum á tímanum 34,32. Synt var þvert yfir Eyjafjörðinn.

 

Í stafsetningu lenti Sigurður Jónsson í 3.-4. sæti og krækti í 7,5 stig og Engilráð Margrét Sigurðardóttir í 5.-11. og og 3 stig í pottinn.

 

Sunneva Jónsdóttir aflaði UMSS 10 stiga er hún varð 9. í 100m bringusundi, 7. Í 50m baksundi, 9. í 50m bringusundi og 9. í 100m fjórsundi

 

Í frjálsum náði Gauti Ásbjörnsson  2. sætinu í þrístökki eftir að hafa stokkið 13,69m, og í stangarstökki sveiflaði hann sér yfir rána þegar hún var komin í 4,10m og landaði þar með 3. sætinu. Theodór Karlsson varð í 7. sæti í stangarstökki en hann stökk 3,40m og 8. sætið varð hans í þrístökki eftir stökk upp á 11,79m.

 

Þá varð boðhlaupsveit karla í UMSS í 1000m boðhlaupi í 8. sæti með tímann 2:06,75mín.  Sveitina skipuðu Árni Rúnar, Gauti, Guðjón og Ragnar Frosti.

 

 

Vilborg Þórunn Jóhannsdóttir  varð Landsmótsmeistari í kringlukasti kvenna, kastaði 39,17m. Linda Björk Valbjörnsdóttir varð í 3. sæti í 400m grindahlaupi á 67,59sek.

 

Þá varð Halldór Örn Kristjánsson í 5. sæti í 400m grindahlaupi (62,64sek), Theodór Karlsson í 7. sæti í langstökki (5,98m) og Guðrún Ósk Gestsdóttir í 11. sæti í langstökki (4,56m).

 

Ragnar Frosti Frostason í 2. sæti í 400m hlaupi, hljóp á 49,94sek. Gauti Ásbjörnsson varð í 5.-6. sæti í hástökki, stökk 1,80m.

 

Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir varð í 6. sæti í hástökki, stökk 1,58m.  Hún hefur því á þessu Landsmóti bætt sinn fyrri árangur um 13cm.  Glæsilegur árangur hjá Þórönnu Ósk sem er aðeins 13 ára.  

 

UMSS endaði í áttunda sæti í stigakeppninni með 524,5 stig

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir