Umhverfisvænar lausnir notaðar í nýrri sundlaug Blönduósbæjar

Blönduósbær hefur fest kaup á búnaði til framleiðslu á klór í tengslum við byggingu sundlaugar á Blönduósi. Jafnframt fellur til sódi við framleiðsluna sem notaður er til að stýra sýrustiginu (ph-gildi) og þarf því ekki að vera með kolsýru sem annars er notuð í þeim tilgangi.

Klór er notaður til sótthreinsunar á sundlaugarvatni og er yfirleitt keypur tilbúinn og er blandaður í vatnið eftir því magni sem þarf til sótthreinsunar. Samkvæmt reglugerð á sundlaugarvatn að hafa sýrustigið á milli 7,2-7,8. Kolsýra er notuð til að lækka sýrustigið þar sem tilbúinn klór hefur hátt sýrustig.

Tækið er það fyrsta sinna tegundar hér á landi og er framleitt af Van den Heuvel í Hollandi. Framleiðslan á sér stað með rafgreiningu og er salt eina afurðin sem þarf í framleiðsluna ásamt rafmagni og vatni. Framleitt er klórgas og það sett beint inn í sótthreinsun auk þess sem kerfið framleiðir klórvatn sem notað er til að mæta dagssveiflum í notkun. Helstu kostir nýja kerfisins eru:

  • •          Lítill framleiðslukostnaður
  • •          Enginn flutningur á milli staða á hættulegum efnum
  • •          Klórlykt minnkar
  • •          Sviði í augum minnkar verulega
  • •          Húðerting minnkar
  • •          Vistvænt fyrir starfsfólk
  • •          Skemmir ekki fatnað við flutning á klór
  • •          Stuðlar að umhverfisvænu umhverfi
  • •          Sundlaugargestum fjölgar þar sem ekki er lengur um óþægindi af klór að ræða

Ókosturinn er að stofnkostnaður við kerfið er mikill en á móti kemur að rekstrarkostnaður er mjög lár.
Kaupin á tækinu samræmist vel umhverfisstefnu Blönduósbæjar þar sem lögð er áhersla á að minnka notkun hættulegra efna sem skaðað geta lífríkið á svæðinu en klór getur verið afar hættulegur lífríkinu ef hann kemst í nægum styrkleika í umhverfið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir