Um kjarabaráttu kennara

Álfhildur Leifsdóttir, grunnskólakennari á Sauðárkróki
Álfhildur Leifsdóttir, grunnskólakennari á Sauðárkróki

Kennarar standa í kjarabaráttu. Í gegnum tíðina hefur það komið illa við samfélagið þegar kennarar berjast fyrir sínum kjaramálum og skildi engan undra, kennarar koma við sögu á mörgum heimilum og eru oft mikilvægar persónur í daglegu lífi margra fjölskyldna.

Hver er ástæðan fyrir að kennarar standa í kjaradeilu einu sinni enn skildi einhver spyrja. Ástæðan er einföld, kennarar, með sína háskólamenntun og sífellda endurmenntun, vinna mikla vinnu fyrir lág laun.

Jú, við fengum launahækkun í síðustu samningum sem telur all nokkrar prósentur en þar sem við vorum mjög lágt launuð fyrir, þá lítur þessi prósentuhækkun ágætlega út á samingi en afleitlega á launaseðli.

Í síðustu samningum seldum við ýmis réttindi og tókum á okkur mikla vinnu til viðbótar. Við vorum skikkuð til að stimpla okkur inn með stimpilklukku sem virkar þó aðeins í aðra áttina, hún dregur af okkur laun ef við stimplum okkur út fyrr en bætir ekki við okkur krónu ef við vinnum lengur. Ég veit ekki um nokkra aðra starfstétt sem vinnur eftir slíkri stimpilklukku.

Tækifæri til yfirvinnu eru ekki til staðar. Hins vegar hefur skólastjórnendum okkar verið gert að hagræða rekstri skólanna eftir tölum í Excel skjali og hefur sú hagræðing valdið meiru álagi á kennara og um leið skert þjónustu nemenda svo sorglegt er. Menntamálastofnun hefur á sama tíma lagt fyrir okkur ýmis verkefni, eins og að efla læsi, sem er frábær stefna og svo var okkur gert að taka upp nýtt námsmat, sem mikil vinna er að koma í framkvæmd. Þessi vinna fer fram hjá kennurum en ekki hjá Menntamálastofnun nema að mjög takmörkuðu leiti.

Hjá kennurum er gríðarleg samstaða. Aðgerða er þörf ef ekki á að bregðast við og hlusta á raddir okkar. Fjöldi kennara hefur þegar sagt störfum sínum lausum og sumir ganga með uppsagnarbréfið í vasanum í þeirri von að samningar náist og þeir fái réttlát laun fyrir vinnuna sem þeir vilja sinna. En komi til þessara uppsagna verða afleiðingarnar með þeim hætti að það tekur langan tíma að laga þær. Og reyndar verða þær aldrei að fullu bættar því skaðinn verður skeður.

Síðustu helgi eyddi ég ásamt 80 öðrum kennurum alls staðar að af landinu á UTís ráðstefnu um upplýsingatækni í skólastarfi. Þar fann ég kraftinn og áhugann sem einkennir þessa starfstétt. Um allt land, í hundraða tali, eru kennarar sem hafa brennandi áhuga á að sinna starfi sínu sem best en hafa ekki efni á því fjárhagslega. Það er raunveruleikinn sem við stöndum frammi fyrir.

Það þarf þjóðarsátt um að kennarar sem vinna með unga fólkinu okkar, fólkinu sem skapar framtíðina, fái laun í samræmi við menntun og ábyrgð, svo ekki verði sá flótti úr kennarastéttinni og skortur á endurnýjun kennara sem stefnir í, með tilheyrandi afleiðingum. Við hljótum öll að vera sammála um að það skiptir gríðarlega miklu máli að vel sé staðið að menntun og velferð barnanna okkar á öllum skólastigum.

Í fámenni þessa lands, með metnaðarfulla kennara sem fá frelsi og traust til að taka kennsluna á sitt besta plan, höfum við einstakt tækifæri til að finna og vinna með styrkleika hvers nemanda og skila frábærum einstaklingum úr grunnskólunum og út í lífið.

Álfhildur Leifsdóttir, grunnskólakennari

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir