Tveir skagfirskir Íslandsmeistarar
Um helgina kom besta frjálsíþróttafólk landsins saman á Selfossi til að berjast um meistaratitlana á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum. Alls voru keppendur um 200 talsins, þar á meðal Skagfirðingarnir Þóranna Ósk Sigurjónsdóttir og Ísak Óli Traustason.
Þau Þóranna og Ísak gerðu sér lítið fyrir og unnu sínar greinar, Þóranna í hástökki kvenna en hún sveif yfir 1,72m. Á heimasíðu Tindastóls segir að þar með hafi hún sett nýtt skagfirskt héraðsmet utanhúss. Gamla metið átti hún sjálf, 1,67m, sett á Gautaborgarleikunum 2014. Kristín Lív Svabo Jónsdóttir veitti Þórönnu harða keppni en hún stökk yfir sömu hæð en felldi oftar rána í keppninni.
Ísak Óli varð Íslandsmeistari í 110m grindahlaupi karla, hljóp á 15,26sek, sem er besti tími hans í sumar. Næstur kom Árni Björn Höskuldsson FH með tímann 15,64. Mótsmetið, 14,10 sek, á Jón Arnar Magnússon, sem hann setti árið 1998 en hann keppti fyrir UMSS.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.