Tveir sigrar og eitt tap á Greifamóti
Tindastóll spilaði þrjá leiki á Greifamótinu um helgina. Liðið lá í fyrsta leiknum fyrir KFÍ, en sigraði síðan Fjölni og Breiðablik. Var liðið eitt þriggja liða með tvo sigra á mótinu en ekki voru krýndir sigurvegarar á þessu móti.
Sigmar Logi Björnsson var ekki með vegna meiðsla á trýni og Ricky Henderson bandaríski leikmaðurinn, er ekki ennþá kominn til landsins.
Á föstudag lék Tindastóll gegn KFÍ frá Ísafirði. Eitthvað hafa okkar menn haldið að létt yrði að vinna þá Vestfirðinga því þeir komust aldrei í takt við leikinn á meðan KFÍ léku við hvurn sinn fingur. Hittni þeirra var góð gegn slakri vörn Tindastóls og þeir unnu að lokum sanngjarnan sigur 74-82. Því miður glataðist leikskýrsla þessa leiks og því liggur ekki fyrir stigaskor leikmanna.
Á laugardaginn mætti Tindastóll Fjölni, en þeir unnu sér sæti í Iceland Express deildinni á síðasta tímabili. Þeir leika undir stjórn Bárðar Eyþórssonar, eru með ungt og spennandi lið og hófu leikinn vel gegn Tindastól. Tindastólsliðið virkaði þungt í upphafi leiks og var undir þegar fyrsta leikhluta lauk 13-24. Í öðrum leikhluta hresstust menn nokkuð og í hálfleik var staðan 33-34 fyrir Fjölni. Þriðji leikhluti var hins vegar vel leikinn af hálfu Tindastóls, vörnin small saman og leikhlutinn fór 25-14 fyrir Tindastól og staðan 58-48. Í síðasta leikhlutanum náði Tindastóll mest 14 stiga forystu en eftir kæruleysislega lokamínútu þar sem Fjölnir skoraði 8 síðustu stigin vannst leikurinn ekki nema með 6 stiga mun 74-68. Svavar var stigahæstur í leiknum með 18 stig, Helgi Freyr skoraði 14, Sveinbjörn 9, Rikki 8, Helgi Rafn og Hreinn Gunnar 6 hvor, Axel 5, Michael og Halldór 3 hvor og Einar Bjarni 2.
Síðar um daginn var leikið gegn úrvalsdeildarliði Breiðabliks, sem nú er stjórnað af Hrafni Kristjánssyni, fyrrum þjálfara Þórs frá Akureyri. Tindastólsliðið náði strax afgerandi forystu í fyrsta leikhluta og staðan eftir hann 22-10. Annar leikhlutinn fór 15-17 fyrir Breiðablik og í hálfleik var staðan því 37-27. Þriðji leikhlutinn var síðan ljómandi vel leikinn af Tindastólsmönnum og staðan eftir hann 59-43. Lokatölur urðu síðan 74-65. Allir 13 leikmenn Tindastóls komu við sögu í þessum leik og stóðu ungu strákarnir sig vel. Svavar Atli setti 19 stig í leiknum, Axel 13, Sveinbjörn 10, Rikki 8. Helgi Freyr og Halldór 7, Helgi Rafn 6 og Michael og Einar Bjarni 2 hvor.
Fjölda skemmtilegra mynda frá mótinu má sjá á heimasíðu Rúnars Hauks Ingimarssonar sem finna má HÉR.
Næsti leikur Tindastóls verður gegn Breiðabliki á útivelli í fyrstu umferð Powerade-bikarsins fimmtudaginn 24. september n.k.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.