„Trymbillinn bróðir minn fær ekki að snerta hann“

Vignir og bassinn í góðu fjöri með Tríó Pilla Prakkó. Mynd: Hjalti Árna
Vignir og bassinn í góðu fjöri með Tríó Pilla Prakkó. Mynd: Hjalti Árna

Vignir Kjartansson svarar „Hljóðfærinu mínu“ að þessu sinni. Vignir býr á Suðurgötunni á Króknum og hefur að hans sögn gert alls konar í gegnum tíðina, alltaf eitthvað tengt matvælavinnslu og hliðarafurðum matvæla. Hann er slátrari og kjötiðnaðarmaður, vann við það í mörg ár en er í dag verkstjóri hjá Mjólkursamlagi Kaupfélags Skagfirðinga.

Hvaða hljóðfæri heldur þú mest upp á af þeim sem þú átt?
„Ég held langmest upp á Fender Jazz Bass, árgerð 2001, framleiddur í USA. Ég hef spilað svo mikið á hann, sérstaklega fyrstu árin, a.m.k. eitt ball í viku og stundum tvö, að hann er orðinn partur af mér einhvern veginn.“

Hvers vegna heldur þú mest upp á þetta hljóðfæri? „Ég keypti hann nýjan af því að ég taldi þessa týpu henta mér vel, eftir að hafa prufað sams konar, það hefur reynst rétt. Mér finnst þessi bassi bestur allra bassa.... ég er hann og hann er ég.“

Ert þú fyrsti eigandinn að hljóðfærinu?
„Já keypti hann nýjan, í Hljóðfærahúsi Reykjavíkur.“

Hefur hljóðfærið hljómað á einhverjum plötum eða lögum?
„Nei ekki á útgefnu efni.“

Hefur þetta hljóðfæri eitthvað fram yfir svipuð hljóðfæri að þínu mati?
„Ekkert annað en að hann passar mér.“

Gætir þú hugsað þér að selja það einhvern tímann?
„Ekki aldeilis.“

Áttu einhverja skemmtilega sögu sem tengist hljóðfærinu á einhvern hátt?
„Ekki þannig en ég hef þó eina reglu varðandi Fenderinn minn, hún er sú að trymbillinn bróðir minn fær ekki að snerta hann, ekki einu sinni að halda á honum í töskunni þegar verið er að róta, þetta hljóta allir að skilja.“

Hefur þú séð á eftir einhverju hljóðfæri sem þú værir til í að eiga í dag?
„Já ég átti einu sinni Peavey bassa, lánaði hann bassaleikaranum í hinu sögufræga bandi Bróðir Svartúlfs og hef ekki séð hann síðan. Ég er til í að fá hann aftur, ég er ekkert reiður, þetta verður allt í lagi.

 

/SMH

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir