Tryggvi Björnsson stigahæsti knapi á Uppskeruhátíð Þyts
Uppskeruhátíð hestamanna í Vestur Húnavatnssýslu fór fram um síðustu helgi og var hún auðvitað mjög skemmtileg eins og alltaf. Verðlaun voru veitt fyrir stigahæstu knapa ársins, efstu ræktunarhross í hverjum flokki og ræktunarbú ársins.
Stigahæstu knapar ársins 2009 eru:
1. flokkur: Tryggvi Björnsson.
Tryggvi er búinn að standa sig frábærlega á árinu og hefur náð góðum árangri á mótum út um allt land. Einnig hefur Tryggvi sýnt fjöldann allan af kynbótahrossum á árinu sem kemur ekki með til útreiknings á knapa ársins hjá Þyt.
Ungmennaflokkur: Helga Una Björnsdóttir.
Í ungmennaflokki á Fjórðungsmóti sigraði hún á Karitas frá Kommu með einkunnina 8,57. Á mótinu hlaut Helga einnig reiðmenntunarverðlaun Félags tamningamanna fyrir glæsilegan árangur. Helga er eins og allir vita afar efnilegur knapi sem á bjarta framtíð fyrir sér. Helga Una var líka tilnefnd sem efnilegasti knapi landsins 2009.
2. flokkur: Hjördís Ósk Óskarsdóttir.
Hjördís stóð sig vel á árinu. Í Húnvetnsku liðakeppninni, varð hún önnur í tölti og fjórgangi á Þrótti frá Húsavík. Á Gæðingamóti Þyts varð Hjördís í fjórða sæti í B-flokki á Hvin frá Sólheimum og á Íþróttamóti Þyts varð hún í 2. sæti í tölti og vann fjórgang á Þrótti frá Húsavík.
Grafarkot var valið ræktunarbú ársins 2009. 13 hross sýnd, meðaleinkunn 7.91 og 5 hross í fyrstu verðlaun.
Viðurkenningar kynbótahrossa: Þessum viðurkenningum má skipta í þrennt, í fyrsta lagi fyrir hæst dæmdu kynbótahrossin í hverjum aldurshópi. Í öðru lagi fyrir hæst dæmdu hryssuna og hæst dæmda stóðhestinn óháð aldri. Og í þriðja lagi hrossaræktarbú ársins í Húnaþingi vestra. Þau hross sem fá viðurkenningu þurfa að vera í eigu félagsmanna. Við val á hrossaræktarbúi ársins eru talin saman öll hross fædd á viðkomandi búi - sem til dóms hafa komið á árinu - og þeim gefin stig eftir árangri þeirra og aldri við dóm.
Sjá Nánar HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.