Tröppurnar í Sýslumannsbrekkunni fengu upplyftingu

Meistarar mála. Hægt er að skoða fleiri myndir frá gærdeginum á Facebook-síðu Húnabyggðar. MYNDIR: HÚNABYGGÐ.IS
Meistarar mála. Hægt er að skoða fleiri myndir frá gærdeginum á Facebook-síðu Húnabyggðar. MYNDIR: HÚNABYGGÐ.IS

Hendur stóðu fram úr ermum í Húnabyggð í gær þegar tröppurnar í Sýslumannsbrekkunni fengu upplyftingu, voru málaðar í regnbogalitunum, en þá sannaðist að margar hendur vinna létt verk. „Við fögnum fjölbreytileikanum í Húnabyggð,“ sagði í færslu á Facebook-síðu sveitarfélagsins.

„Krakkarnir byrjuðu á grænum og gulum. Og þegar þeirra vakt lauk var stórskotaliðið kallað út. Valli Húnabyggð sá um vinstri vænginn og litina sem hafa rautt í sér og Guðmundur Haukur Jakobsson sá um hægri vænginn og bláu litina. Starfsmenn sveitarfélagsins hlýddu skipunum verkstjóranna og verkið gekk eins og í sögu. Bóbó kom með kaffi fyrir mannskapinn og Elfa Þöll Grétarsdóttir kom og setti punktinn yfir i-ið á síðustu metrunum. Þröstur Ingvason sendi okkur málningu að sunnan og við þökkum kærlega fyrir það!“ segir hressilega í færslunni.

Þar kemur einnig fram að hugmyndin hafi upphaflega komið frá listakonunni Morgan en margir hafi haft á orði að þetta hafi þeim dottið í hug fyrr. „Allar góðar hugmyndir eigum við saman í kosmosinu og mestu máli skiptir að gera eitthvað við þær.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir