Tónleikar til styrktar orgelsjóði Blönduósskirkju
Á degi tónlistaskólanna laugardaginn 27. febrúar nk. mun Lionsklúbburinn á Blönduósi í samstarfi við Tónlistaskóla A-Hún. standa fyrir tónleikum í Blönduósskirkju.
Sólveig Sigríður Einarsdóttir (Sísa), tónlistarkennari, mun sýna nýja pípuorgelið og kynna litróf hinna fjölmörgu radda, fínleika hæstu tóna og mikinn hljómstyrk hljóðfærisins.
Um fjölbreytta dagskrá er að ræða með þátttöku kennara og nemenda Tónlistarskóla A-Hún. og annarra Húnvetninga. Í stórum dráttum er dagskráin þannig að „Sísa“ mun flytja glæsilegt orgelverk þar sem pípuorgelið fær að njóta sín á allan hátt. Tónlistaskólastjórarnir; Skarphéðinn Einarsson, Tónlistaskóla A-Hún. og Sveinn Sigurbjörnsson, tónlistaskólanum á Sauðárkróki mun flytja verk fyrir tvo trompeta, Einar Bjarni Björnsson mun leika á básúnu undir orgelleik „Sísu“ og Ardís Ólöf Víkingsdóttir mun syngja einsöng.
Nemendur úr Tónlistaskóla A-Hún. munu leika lög á píanó, bæði einleik og fjórhent. Einnig verður einsöngur. Leikið verður á harmonikku, klarinett og þverflautu og loks mun lúðrasveit Tónlistaskólans leika nokkur lög.
Dagskrá tónleikanna verður auglýst nánar þegar nær dregur, en fólki er bent á að taka daginn frá og njóta góðrar tónlistar. Allur ágóði af tónleikunum rennur til orgelsjóðs Blönduósskirkju.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.