Tónleikar í Blönduóskirkju og í Miðgarði
Kirkjukór Glaumbæjarprestakalls hefur staðið í ströngu undanfarið. Ekki er langt síðan að kórinn var með gospeltónleika á Skagaströnd, sem voru vel sóttir og tókust mjög vel. Voru það svipaðir tónleikar og kórinn flutti á liðnu sumri í Þorgeirskirkju í Ljósavatnsskarði og í Glerárkirkju á Akureyri. Síðastliðinn sunnudag söng kórinn við aðventuhátíð á Löngumýri og framundan er söngur við messur um jól og áramót.
Sunnudagskvöldið 13. desember mun kórinn halda tónleika í Blönduóskirkju kl. 20.30. Flutt verður verkið Deutsche Messe, þýsk messa, eftir tónskáldið Franz Schubert.
Þar mun Rögnvaldur Valbergsson leika undir á nýtt og glæsilegt pípuorgel kirkjunnar. Þessir tónleikar verða einnig fluttir í Menningarhúsinu Miðgarði þriðjudagskvöldið 15. desember kl. 20.30. Þar spila með kórnum:
Gunnar Þorgeirsson óbó, Kristín Halla Bergsdóttir fiðla, Sif Björnsdóttir selló og Rögnvaldur Valbergsson píanó og orgel. Einsöngvari er Margrét S. Stefánsdóttir og stjórnandi er Stefán R. Gíslason. Kynnir er séra Gísli Gunnarsson. Gestir kvöldsins í Miðgarði verða sr. Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur og Eyþór Árnason frá Uppsölum og munu þeir lesa upp úr bókum sínum Hjartsláttur og Hundgá úr annari sveit. Kaffiveitingar verða í hléinu. Aðgangseyrir er kr. 1000 Samkomurnar eru styrktar af Menningarsjóði Norðurlands vestra.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.