Töfrakonur í Húnavatnshreppi

Fyrirtækið “Töfrakonur/Wagic Women ehf” er nýtt fyrirtæki í Húnavatnshreppi.Eigendur fyrirtækisins eru Birgitta Hrönn Halldórsdóttir, Jóhanna Helga Halldórsdóttir og Þuríður Guðmundsdótti en fyrirtækið er stofnað  vegna framleiðslu og sölu á ýmsum vörum sem tengdar eru ferðaþjónustu og menningu.
Hugmyndin er að framleiða margvíslegar vörur, s.s. gjafavörur ýmiss konar, sem þá eru að stærstum hluta hugsaðar fyrir ferðamenn.  Einnig verður fyrirtækið með korta, kilju og bókaútgáfu, framleiðslu á skartgripum, fatnaði og svo á vöru unnum úr jurtum. Ýmsar hugmyndir hafa komið upp og framtíðarsýnin er sú að með tíð og tíma eignist fyrirtækið eigin verslun og muni hafa fleiri í vinnu en eigendur.

Nokkrar vörur sem fyrirtækið mun verða með eru þegar tilbúnar til afgreiðslu.  Má þar nefna “Óskasteininn” og “Draumasteininn” sem eru skrautsteinar til gjafa undir flokknum “Töfrasteinar”. Þeir eru í poka úr íslensku fánalitunum og með fylgir mantra á íslensku og ensku. Steinarnir eru í fallegum gjafakössum. Fleiri steinar eru væntanlegir með öðrum nöfnum og möntrum (kærleikssteinn, vonarsteinn, trúarsteinn, heilunarsteinn og framtíðarsteinn).

Fyrirtækið fékk nafnið “Hveravallagull” fyrir skartgripalínu sem verið er að hanna og framleiða fyrir “Töfrakonur / Magic Women ehf.” Fyrstu skartgripirnir undir þessu nafni eru gerðir úr silfri og ferskvatnsperlum( eyrnalokkar, armbönd, og hálsmen), en í framtíðinni er hugmyndin að hafa fleiri skartgripalínur undir nafninu “Hveravallagull”.

Tilbúnar til sölu eru “Runes of Magic”, sem eru gjafakassar með spárúnum sem hannaðar voru og framleiddar fyrir “Töfrakonur / Magic Women ehf.”  Um er að ræða gjafakassa með rúnapoka úr leðri sem inniheldur 24 rúnir. Með fylgja leiðbeiningar á ensku og íslensku.
Í prentun eru spil með lógói fyrirtækisins og spil með íslensku jurtunum sem munu fljótlega koma á markað. Einnig er fyrirtækið að leita tilboða í prentun á fjórum kiljum sem eru tilbúnar til útgáfu. Þetta eru þrjár sveita/ástar/afþreyingarsögur sem heita ”Þar sem hjartað slær” og ”Út við svala sjávarströnd” eftir Birgittu Hrönn, og ”Enginn er eins og þú” eftir Jóhönnu Helgu; svo og eitt ljóðabókarhandrit með ljóðum eftir Jóhönnu Helgu, sem hefur fengið nafnið ”Konfektmolar”.

Væntanleg eru spáspil sem nefnast “Töfraspilin” og er verið að vinna að hönnun þeirra fyrir fyrirtækið. Þetta allt, ásamt fleiri hugmyndum er hugsað sem sumarsala fyrir sumarið 2010. Ekki er ljóst hversu hratt framleiðslan mun ganga, enda eru margir þættir sem spila þar inn í. Markmiðið er að eigendur hafi atvinnu af vinnu við fyrirtækið, - og síðan fleiri í framtíðinni.  Á áætlun fyrirtækisins er að gefa út ýmsan fróðleik og skemmtisögur úr Húnaþingi, ásamt vörum sem verða eyrnamerktar stöðum og atburðum á Norðurlandi vestra.

Fyrirtækið “Töfrakonur / Magic Women ehf” er að stíga sín fyrstu skref. Að mörgu er að huga og hafa eigendur fullan hug á að gera góða og vandaða vöru. Það er von eigenda að með góðum stuðningi og jákvæðri vinnu takist að gera þetta fyrirtæki eitt af framtíðartækifærunum á Norðurlandi vestra.

Heimilisfesta fyrirtækisins er að Syðri-Löngumýri í Húnavatnshreppi. Skoðunarmaður er Ingibjörg Kristinsdóttir  á Skagaströnd.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir