Tindastólsstelpur unnu Álftanes með marki á 93. mínútu

Bryndís Gunnarsdóttir var í marki og varð fyrir því óhappi að fingurbrotna. Mynd: Jóhann Sigmarsson.
Bryndís Gunnarsdóttir var í marki og varð fyrir því óhappi að fingurbrotna. Mynd: Jóhann Sigmarsson.

Stelpurnar í Tindastól lögðu Álftanes 3-2 á gervigrasvellinum á Sauðárkróki í gær og hafa þar með unnið báða sína leiki í C-deild Lengjubikarsins þetta árið. Hugrún Pálsdóttir og Kolbrún Ósk Hjaltadóttir skoruðu sitthvort markið á fyrstu 25 mínútum og staðan 2-0 í hálfleik.

Á Facebooksíðu knattspyrnudeildar Tindastóls segir að í seinni hálfleik hafi verið meira jafnræði með liðunum en samt sem áður nokkuð óvænt þegar Álftnesingar jöfnuðu leikinn með tveimur mörkum á sjö mínútna kafla, hið síðara á 89. mínútu. „En karakterinn í stelpunum okkar er mikill og þær náðu að knýja fram sigur þegar Murielle Tiernan, sem er ný komin á Krókinn frá Bandaríkjunum, lagði upp sigurmark Guðrúnar Jennýjar Ágústsdóttur á 93. mínútu. Góður og verðskuldaður sigur í húsi og næsti leikur strax á miðvikudaginn þegar stelpurnar mæta Gróttu á Seltjarnarnesi.

Bryndís Heiða Gunnarsdóttir stóð á milli stanganna allan leikinn og var ekkert að láta fingurbrot stoppa sig. Eftir leikinn fór hún upp á spítala til að láta líta á fingurinn á sér, en hann hafði orðið fyrir hnjaski í fyrri hálfleik, km þá í ljós að hann var brotinn. Hafði Bryndís því spilaði heilan hálfleik í markinu fingurbrotin.

Tindastóll situr nú í 2. sæti með sex stig,  jafnmörg stig og Fjölnir sem trónir á toppnum, en hefur skorað tveimur mörku færra. Í 3. sæti er Afturelding/Fram með 3 stig, Grótta í 4. sæti með þrjú stig en á botninum situr Álftanes stigalaust.

Sjá HÉR

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir