Tindastólssigur á Selfossi
Tindastóll vann góðan útisigur á FSu á Selfossi í kvöld í Iceland-Express deildinni. Lokatölur leiksins urðu 69 - 77. Staðan eftir fyrsta leihluta var 20-23 fyrir Tindastól, í hálfleik var hún 43-44 og eftir þriðja leikhluta 58-61.
Darrell Flake lék að nýju með Tindastóli í leiknum, var þó ekki í byrjunarliðinu en skoraði 23 stig og tók 5 fráköst á þeim tæpu 30 mínútum sem hann lék. Svavar Birgisson skoraði 21 stig og tók 4 fráköst, Ísak Einarsson átti mjög góðan leik, skoraði 13 stig, tók 8 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Hann var með 60% skotnýtingu í tveggja stiga skotum og 67% nýtingu úr þriggja stiga skotum sínum. Helgi Viggósson skoraði 12, Friðrik Hreinsson 7 og Axel Kárason 1.
Eftir leikinn er Tindastóll í 5. sæti deildarinnar en 13. umferðin klárast á morgun með fjórum leikjum. Í hinum leik kvöldsins vann Stjarnan ÍR, í hörkuleik.
Næsti leikur Tindastóls er gegn Grindavík á heimavelli á sunnudaginn kl. 19.15.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.