Tindastólsmenn úr leik í Mjólkurbikarnum
Karlalið Tindastóls heimsótti lið Völsungs á Húsavík sl. miðvikudagskvöld í annarri umferð Mjólkurbikarsins. Ekki bjuggu strákarnir til neinn rjóma í þessari ferð því heimamenn í Völsungi reyndust sterkari og sigruðu 3-1 og geta liðsmenn Tindastóls því farið að einbeita sér að þátttöku í 2. deildinni.
Ekki tókst liðunum að koma boltanum í mörkin í fyrri hálfleik en aðeins voru liðnar tvær mínútur af síðari hálfleik þegar Akil Rondel Dexter De Freitas gerði fyrsta markið fyrir Völsung. Hann var aftur á ferðinni á 60. mínútu og Bjarki Baldvinsson bætti þriðja markinu við á 82. mínútu. Arnór Guðjónsson lagaði stöðuna fyrir Stólana með marki á 90. mínútu en allt kom fyrir ekki.
Tuðrusparksvefurinn Fótbolti.net hefur hafið niðurtalninguna fyrir Íslandsmótið í knattspyrnu og nú í vikunni hófst birting á spá þjálfara liðanna sem spila í 2. deild í sumar. Líkt og undanfarin sumar hafa menn ekki miklar væntingar til liðs Tindastóls og er þeim spáð 12. og neðsta sæti. Þrátt fyrir hrakspár síðustu tvö sumur hafa Stólarnir endað um miðja deild og ætla sér örugglega að sanna sig í sumar. Von er á tveimur erlendum leikmönnum til liðsins sem reiknað er með að styrki hópinn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.