Tindastólsmenn með frækinn sigur gegn Stjörnunni

Helgi Viggós og Axel Kára nokkuð hressir í leikslok. Mynd: Karfan.is

Stólarnir urðu fyrstir til að leggja Stjörnumenn að velli í Iceland Express deildinni í körfubolta í gærkvöldi og það í Ásgarði. Barátta Tindastólsmanna var til fyrirmyndar og lokasekúndur æsispennandi en Stjarnan fékk boltann þegar 2,6 sekúndur voru eftir af leiknum og staðan 93-95 en sá tími dugði ekki til þrátt fyrir að Justin Shouse næði skoti. Nú ætti að vera komið pínu diskó í Tindastólsliðið eftir erfiða byrjun á mótinu og ekki annað í stöðunni en að fjölmenna í Síkið næstkomandi fimmtudagskvöld þegar Keflvíkingar koma í heimsókn.

Amani Daanish var stigahæstur hjá Tindastól með 26 stig, 12 fráköst, 3 stoðsendingar og 3 varin skot. Daanish vaknaði verulega til lífsins í síðari hálfleik eftir að hafa verið vart skugginn af sjálfum sér í þeim fyrri. Helgi Viggósson var vafalítið maður vallarins og í þrígang voru áhorfendur í stórfelldri hættu þegar Helgi kastaði sér á eftir boltanum upp í stúku. Helgi lauk leik með 20 stig, 12 fráköst og 2 stolna bolta. Þá átti Giovacchini ekki síðri leik fyrir Stólana með 23 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar.

Stórfína umfjöllun um leikinn er að finna á Karfan.is og að auki myndir úr leiknum og viðtal við Helga Viggós.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir