Tindastóll/Neisti áfram í VISA-bikarnum
Stelpurnar í Tindastóli/Neista unnu sannfærandi sigur á HK/Víkingi í VISA-bikar kvenna í gær á heimavelli. Komnar í 16 liða úrslit.
HK/Víkingur sá aldrei til sólar í sjómannadagsþokunni í dag er þær mættu ofjörlum sínum á Sauðárkróki í VISA-bikarnum en Tindastóll/Neisti byrjaði leikinn af fullum krafti og stjórnaði honum allt til loka, börðust vel og spiluðu boltanum yfirvegað og sköpuðu sér mörg marktækifæri. Eftir stundafjórðungs leik fékk Brynhildur dauðafæri en boltinn rétt sveif yfir slána, en 5 mínútum síðar leit fyrsta markið dagsins ljós eftir mikið hark fyrir framan mark HK/Vík. eftir hornspyrnu. Þar var Rabbý á ferðinni og með hennar miklu baráttu og þrautseigju fór boltinn í netið og staðan orðin 1-0 fyrir T/N.
Sex mínútum síðar eða á 26. mínútu var Rabbý aftur á ferðinni og gerði laglegt mark er hún setti boltann í vinstra hornið hjá markmanni HK/Vík. sem var bæði pirruð og svekkt með leikinn og ekki síst dómarann og ekki batnaði dagurinn við þetta mark. Staðan orðin 2-0 og T/N herti enn sóknirnar og það fór í skapið á andstæðingunum sem ekki voru sáttir við dómgæsluna en það varð til þess að Hildigunnur Sól Kristjánsdóttir HK/Vík. fékk gult spjald fyrir að mótmæla dómaranum. Það var henni dýrt því skömmu síðar fékk hún sitt annað gula spjald sem þýddi brottrekstur og nú fyrir peysutog. T/N tók aukaspyrnu og boltinn barst inn á vítateig HK/Vík. og í hendi einnar þeirra en dómarinn lét leikinn halda áfram, fannst líklega nóg komið í bili og flautaði skömmu síðar til hálfleiks.
Í seinni hálfleik héldu heimastúlkur uppteknum hætti og hleyptu gestunum aldrei inn í leikinn þó einstaka skot hafi komið á markið en Þóra Marteinsdóttir markmaður T/N var örugg og átti teiginn skuldlausan. T/N stúlkur áttu hvert færið af öðru sem bar árangur á 68. mínútu þegar Þóra Rut Jónsdóttir skoraði eftir mikinn sprett og baráttu við varnarmann og náði að koma boltanum framhjá markmanni andstæðinganna. Staðan 3-0 og vænleg fyrir heimaliðið sem hélt henni allt til loka leiksins og þær komnar í 16 liða úrslit. Á 89. mínútu fékk Kristín Lilja Friðriksdóttir HK/Vík. sitt annað gula spjald og fór sömu leið og stallsystir hennar fyrr í leiknum og léku gestirnir því tveimur færri síðustu mínúturnar.
Frábær leikur hjá stelpunum sem eru fullar sjálfstrausts og baráttuvilja, spila boltanum yfirvegað sín á milli og ná þannig árangri sem sterk liðsheild. Dómarinn Þorleifur Andri Harðarson frá Stykkishólmi hefur vonandi átt betri dag á vellinum en þennan sjómannadag en HK/Víkingsliðið lét hann fara sérlega mikið í taugarnar á sér og kannski réttilega, en það getur líka kostað sitt.
Bjarki Már þjálfari var ánægður eftir leikinn: -Þetta var virkilega góður leikur hjá okkur. Við vorum að taka boltann niður og stjórnuðum leiknum allan tímann. Þær komust aðeins inn í þetta í upphafi seinni hálfleiks en að öðru leiti fannst mér við vera með leikinn. Þær voru mjög einbeittar og virkilega flottur leikur. Vonum að við fáum KR í næstu umferð.
Leikskýrslu er hægt að sjá HÉR
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.