Tindastóll úr leik í bikarnum.

Tindastóll og ÍR léku á föstudagskvöld í 16 liða úrslitum Subway bikarsins í gærkvöldi. Ekki náðu Stólarnir að hefna fyrir tapið í deildinni á dögunum og lágu aftur fyrir heimamönnum í Hellinum. Voru lokatölur leiksins 69 – 56.

 

Í umfjöllun um leikinn á körfunnu.is segir að gestirnir frá Sauðárkróki hafi framan af verið með frumkvæðið en hafi leikið án Darrels Flake og munað hafi um minna. Flake fór í hnéaðgerð sl. föstudag og verður frá næsta mánuðinn. Félagarnir Friðrik Hreinsson og Óli Barðdal voru að nýju komnir með KS merkið á bringuna og fékkst ekki betur séð en að kapparnir verði fljótir að finna taktinn með Stólunum. Ómar Sævarsson bauð þó upp á tilþrif leiksins og það í fyrsta leikhluta þegar hann kom keyrandi inn miðjuna, fékk góða sendingu á ferðinni, vippaði sér upp og tróð með tilþrifum og staðan 12-10 fyrir ÍR. Stólarnir leiddu þó eftir fyrsta leikhluta 16-18.

Gestirnir leiddu í hálfleik 31-32 þar sem Helgi Viggósson var kominn með 14 stig fyrir Stólana og Svavar Atli Birgisson 8. Hjá ÍR var Hreggviður með 10 stig og Steinar Arason 8.


Hreggviður fór mikinn í síðari hálfleik í kvöld og kom ÍR í 38-34 með því að skora 7 fyrstu stig heimamanna í síðari hálfleik. Tindastólsmenn áttu bágt með að hafa gætur á Hreggviði sem hitti bæði vel fyrir utan og lék menn grátt á blokkinni. Baráttan í síðari hálfleik var mögnuð en fyrir vikið varð lítið úr sóknarleik beggja liða. Ísak Einarsson fór fyrir Tindastól í seinni hálfleik og átti fína spretti en gestirnir voru í mestu vandræðum með leikstjórnendastöðuna þar sem Fall var ekki með hugann við leikinn.

ÍR náði forystunni í þriðja leikhluta og leiddu að honum loknum 50-45. Heimamenn höfðu frumkvæðið í fjórða leikhluta en gestirnir voru aldrei langt undan. Maður leiksins, Hreggviður Magnússon, gerði svo út um leikinn þegar rétt rúm mínúta var til leiksloka. Hreggviður sökkti þá þriggja stiga skoti og breytti stöðunni í 68-54 og það reyndist gestunum ofviða og lokatölur eins og fyrr greinir 69-56.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir