Tindastóll spældi topplið Njarðvíkur
Í gærkvöldi mættust efstu liðin í Dominos-deildinni í sannkölluðum toppslag og var talsvert undir. Með sigri hefðu Njarðvíkingar náð sex stiga forystu á toppi deildarinnar og því mikilvægt fyrir Stólana að sýna sitt rétta andlit eftir lélega leiki nú í byrjun árs. Sú reyndist raunin því nú könnuðust stuðningsmenn Tindastóls við sína menn sem börðust eins og ljón og voru ekki lengur með hausinn undir hendinni heldur á réttum stað og rétt stilltan. Eftir frábæran háspennuleik sigruðu Stólarnir 75-76 og eru nú vonandi komnir í gírinn á ný.
Liðin mættust í fyrra skiptið í nóvember og þá keyrðu Tindastólsmenn yfir Njarðvíkinga í leik þar sem vörn Tindastóls gerði útslagið. Þá var Jeb Ivey látinn erfiða sem aldrei fyrr en nú eru aðstæður töluvert aðrar með tilkomu Elvars Más í lið Njarðvíkur. Sá gaur er alveg góður og nógur eldur í löppunum á honum til að spóla yfir flest lið. Þegar hinsvegar Tindastólsliðið nær að spila vörn, þá er spiluð VÖRN! Þannig að hér mættust stálin stinn.
Heimamenn fóru heldur betur af stað og komust í 10-5 en þá fylgdi frábær kafli Tindastóls sem náðu 13-0 kafla þar sem Danero, Pétur og Brynjar settu þrista og Urald gerði tvær körfur. Heimamenn lögðuðu stöðuna áður en fyrsti leikhluti kláraðist og staðan 17-20. Njarðvíkingar gerðu fyrstu sex stig annars leikhluta en Pétur jafnaði leikinn með þristi. Jafnræði var með liðunum næstu mínútur en Njarðvík náði fimm stiga forystu um miðjan leikhlutann, 32-27, og tók Martin leikhlé upp úr því. Þá náðu Stólarnir að laga leik sinn og náðu aftur forystunni en í hálfleik munaði einu stigi, staðan 36-37 eftir stökkskot frá Urald King.
Kóngurinn virtist vera að nálgast haustformið góða og var mun meira sannfærandi nú en gegn Stjörnunni sl. þriðjudag. Augljóslega er hann þó ekki alveg orðinn góður af meiðslunum. Þristar frá Danero og Pétri í upphafi síðari hálfleiks komu Stólunum 36-43 og næstu mínútur leiddu Stólarnir yfirleitt með 3-6 stigum. Julian Rajic jafnaði leikinn 54-54 en í kjölfarið fylgdi óagaður sóknarleikur Njarðvíkinga og Stólarnir náðu aftur vopnum sínum. Tvistur frá Urald og þristur frá Viðari bættu stöðuna og síðan braust Friðrik Stefáns í gegnum vörn heimamanna og lagði boltann í og fékk víti að auki sem hann setti niður eins og höfðingi. Staðan 54-62. Mario Matasovic, sem var einn besti maður Njarðvíkurliðsins, lagaði stöðuna með því að setja niður eitt víti og staðan 55-62 fyrir lokafjórðunginn.
Logi Gunn og þristur frá Elvari minnkuðu muninn í byrjun fjórða leikhluta, Helgi Rafn setti eina körfu á milli þeirra, og leikurinn gjarsamlega í handjárnum. Nú börðust menn um allan völl eins og lífið lægi við. Heimamönnum gekk illa að jafna leikinn og Stólarnir alltaf skrefinu á undan. Á þessum kafla var Jeb Ivey ítrekað að reyna að stela þrumunni og reyndi skot sem voru hreinlega of erfið því Stólarnir vörðust honum vel. Axel Kára kom Stólunum fimm stigum yfir, 65-70, en tvær körfur frá Elvari minnkuðu muninn í eitt stig. Urald King setti pollrólegur tvö víti niður en aftur var það Elvar Már sem kom heimamönnum til bjargar, Urald braut á honum við körfuna en á einhvern ótrúlegan hátt fór skotið niður og vítið fór niður sömuleiðis og allt jafnt í Ljónagryfjunni. 72-72. Nú var spennan orðin yfirgengileg. Njarðvíkingar hafa ekki verið að spila ofurvel að undanförnu en náð yfirhöndinni á lokamínútum leikja sinna. Var það að endurtaka sig?
Í liði Tindastóls er hins vegar kappi sem kallast Brynjar Þór og hann náði loksins að losa sig, eftir að hafa verið í gjörgæslu mest allan leikinn. Pétur kom boltanum á hann utan 3ja stiga línunnar þar sem hann náði að snúa og reka niður þrist með gullhamrinum sínum þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af leiknum. Næstu sóknir liðanna báru ekki árangur en eftir misheppnaða sendingu Danero brunuðu Njarðvíkinar upp völlinn, Logi Gunn fékk boltann, og hann svaraði þristi með þristi eins og einhvern tímann áður. Stólarnir tóku leikhlé og 18 sekúndur eftir. Nú tók Martin þá sérstöku ákvörðun að í stað þess að taka boltann inn undir körfu Tindastóls og geta mögulega haldið boltanum út leiktímann, þá var boltinn tekinn inn á vallarhelmingi Njarðvíkur. Það þýddi að Stólarnir fengu 14 sekúndur til að klára sóknina sína og því nokkuð víst að Njarðvíkingar fengju nægan tíma til að svara fyrir sig. Það var Pétur sem fékk boltann og hann brunaði inn í vörn Njarðvíkinga þegar um 10 sekúndur voru eftir og á honum var brotið. Hann fékk því tvö víti og það fyrra geigaði en seinna skotið setti hann niður og kom Stólunum einu stigi yfir, 75-76.
Njarðvíkingar tóku leikhlé með rétt tæpar tíu sekúndur eftir. Nægur tími til að gera ansi margt á vellinum. Niðurstaðan var sú að treysta Jeb Ivey til að klára leikinn. Stólarnir höfðu spilað góða vörn á hann allan leikinn en hann hafði engu að síður reynt urmul erfiðra skota og lítið gengið. Hann fékk því boltann og með Dino á sér reyndi hann erfitt skot sem hitti ekki einu sinni hringinn. Stólarnir voru nú með pálmann í höndunum, þrjár sekúndur eftir, og í kjölfar leikhlés tóku þeir boltann inn á vallarhelmingi Njarðvíkur og Brynjar fékk boltann og leiktíminn rann síðan út við mikinn fögnuð leikmanna Tindastóls og fjölmargra stuðningsmanna liðsins sem lagt höfðu leið sína í Ljónagryfjuna og studdu vel við bakið á sínum mönnum.
Tölfræði á vef KKÍ >
Þetta var sannarlega sigur liðsheildarinnar í gærkvöldi. Nú unnu menn hver fyrir annan og allir lögðu allt í sölurnar fyrir Tindastólssigur. Urald King var með 25 stig og tíu fráköst þrátt fyrir að geta ekki beitt sér sem skildi. Danero var með 14 stig og Pétur og Viðar tíu stig hvor en best lék lið Tindastóls þegar Viðar var inni á vellinum. Brynjar var með átta stig en skilaði sjö stoðsendingum. Í liði Njarðvíkur var Elvar Már Friðriksson með 20 stig og Mario Matasovic 15 stig og 15 fráköst. Jeb Ivey gerði tíu stig en skotnýtingin aðeins 21%.
Nú munar tveimur stigum á liðunum en lið Njarðvíkur (26 stig) hefur einungis tapað tveimur leikjum í vetur og báðum gegn liði Tindastóls. Stjarnan og KR eru sem stendur með 20 stig en Stjarnan á leik til góða gegn Keflavík. Næsti leikur Stólanna er í Síkinu næstkomandi fimmtudag en þá koma Íslandsmeistarar KR í heimsókn. Það má reikna með stórleik.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.