Tindastóll í úrslit! | UPPFÆRT

Nokkrir mættir í Síkið 45 mínútum fyrir leik í kvöld. MYND: ÓMAR BRAGI
Nokkrir mættir í Síkið 45 mínútum fyrir leik í kvöld. MYND: ÓMAR BRAGI

Tindastóll og Njarðvík mættust í fjórða leiknum í rimmu liðanna í undanúrslitum Subway-deildarinnar í Síkinu í kvöld. Talið er að um 1200 manns hafi troðið sér í Síkið og fengu flestir eitthvað fyrir sinn snúð og rúmlega það. Leikurinn var æsispennandi en gestirnir byrjuðu betur. Stólarnir löguðu stöðuna í öðrum leikhluta en gestirnir leiddu í hálfleik, 45-47. Þriðji leikhlutinn reyndist Stólunum dýrmætur að þessu sinni og liðið náði undirtökunum í leiknum en gestirnir minnkuðu muninn í tvö stig, 77-75, þegar fjórar mínútur voru eftir. Stólarnir héldu vel á spöðunum síðustu mínúturnar og sigruðu að lokum, 89-83, og tryggðu sér þannig réttinn til að spila við Valsmenn í úrslitaeinvíginu. Þvílíka snilldin!

Stemningin í Síkinu var engu lík í kvöld og nokkuð augljóst að lengi getur gott besnað. Staðan í einvígi liðanna var 2-1 Stólum í hag en margir höfðu þá tilfinningu að Stólarnir væru í slæmum málum ef þeir töpuðu leiknum í Síkinu og þyrftu að sækja Njarðvíkinga heim í Ljónagryfjuna í þriðja skiptið. Það stefndi því allt í nístandi naglbít og ljóst að stuðningur áhorfenda gæti skipt sköpum. Það er óhætt að fullyrða að Grettismenn, og margir fleiri illa smitaðir af Síkisbakteríunni, hafi hoppað, klappað, sungið og stappað liðið sitt áfram í þrjá fjóra tíma. Og uppskáru eftir því.

Liðin voru svolítið yfirspennt í byrjun leiks og mikið um tapaða bolta en það voru gestirnir sem tóku forystuna, komust í 10-16 eftir um fimm mínútna leik en Siggi Þorsteins kom heltjúnnaður til leiks en það voru hann, Bess og Arnar sem voru iðnir við stigaskor Stólanna framan af leik . Súper Mario kom Njarðvíkingum níu stigum yfir, 24-33, en Bess skellti í þrist og lagaði stöðuna fyrir lok fyrsta leikhluta. Staðan 27-33. Það hvorki gekk né rak hjá báðum liðum að koma boltanum í körfuna fyrstu mínútur annars leikhluta, liðin gerðu sitt hvora körfuna fyrstu fimm mínúturnar, en síðan skellti Zoran í þrist og Arnar bætti öðrum við og jafnaði metin 35-35. Benni tók þá leikhlé og gestirnir sigu fram úr á ný. Þeir náðu fimm stiga forystu rétt fyrir hálfleik eftir stökkskot frá Basile en aftur skellti Bess í flautuþrist og tveimur stigum munaði í hálfleik, staðan 45-47.

Hvorki Badmus né Pétur náðu að skora í fyrri hálfleiknum en Bess fór mikinn og gerði þá 17 stig. Siggi jafnaði leikinn, 49-49, snemma í þriðja leikhluta og næstu mínútur var jafnræði með liðunum. Um miðjan leikhlutann skoruðu stigalausu kapparnir níu stig í röð og breyttu stöðunni úr 52-56 í 61-59 og í framhaldinu náðu Stólarnir sjö stiga forystu og leiddu 68-61 þegar lokafjórðungurinn fór í gang. Arnar smellti niður þristi í upphafi fjórða leikhluta og Siggi og Zoran bættu við sitt hvorri körfunni og skyndilega var munurinn orðinn 14 stig, staðan 75-61 og útlitið bjart hjá Stólunum. Njarðvíkingar kunna eitt og annað fyrir sér á parketinu og tveir þristar frá Basile og Richotti komu þeim aftur inn í leikinn. Eins og sagði í inngangi þá minnkuðu gestirnir muninn í tvö stig þegar fjórar mínútur voru til leiksloka og Baldur Þór tók leikhlé. Í kjölfarið bættu Zoran og Siggi við fjórum stigum og Stólarnir fengu smá andrými. Skrautlegur þristur frá Zoran, tekinn í litlu jafnvægi þegar skotklukkan var að renna út, fór langt með að gulltryggja sigurinn, staðan 86-77. Njarðvíkingar gáfust ekki upp og minnkuðu muninn í þrjú stig en Zoran setti niður eitt víti þegar 20 sekúndur voru eftir og ljóst að Njarðvíkingar þurftu tvær körfur. Þriggja stiga skot frá Fotios fór hins vegar forgörðum og Pétur lagði boltann í körfu gestanna þegar örfáar sekúndur lifðu af leiknum. Sigurinn í höfn.

Að þessu sinni voru það Siggi og Bess sem voru stigahæstir Stólanna með 20 stig og Zoran og Arnar skiluðu sautján skröttum á stigatöfluna. Zoran tók flest fráköst Stólanna eða tíu og Siggi hirti níu og þar af fimm sóknarfráköstum. Badmus gerði sjö stig að þessu sinni en Njarðvíkingar settu svolítið púður í að stoppa hann í sókninni en hann skilaði átta fráköstum og skellti í eina geggjaða troðslu. Pétur var með sex stig og sex fráköst auk þess sem hann átti fimm stoðsendingar.

Næsti leikur er því á Hlíðarenda þar sem Valsmenn bíða eftir Stólunum en þeir hafa unnið báðar sínar rimmur til þessa með sóp; mættu fyrst liði Stjörnunnar og síðan Íslandsmeisturum Þórs úr Þorlákshöfn. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir