Tindastóll í bullandi baráttu um sæti í úrslitakeppninni

Tindastólsmenn gerðu góða ferð á Selfoss í gær en þar spiluðu þeir við fall-lið FSu í 20. umferð Iceland Express deildarinnar. Ekki reyndust heimamenn mikil fyrirstaða enda nýbúnir að senda sinn ágæta kana heim í sinn heiðardal. Þegar upp var staðið höfðu Stólarnir 26 stiga sigur, 73-99.

Kalli hóf leik með sama byrjunarlið og hér heima gegn Snæfelli en þá var byrjunarliðið skipað Cedric, Rikka, Hreinsa, Helga Rafni og Donatas. Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar en það reyndist heimamönnum erfitt að stöðva Rikka sem fann gamla og góða fjöl til að setja 3ja stiga skotin sín niður af, en alls gerði Rikki sjö 3ja stiga körfur í leiknum í 9 tilraunum. Cedric stjórnaði leiknum vel og var duglegur að finna heitustu leikmenn Stólanna og náðist því fljótlega ágætt forskot og í hálfleik var staðan 31-48.

Tindastólsmenn héldu forystunni af öryggi í síðari hálfleik og voru leikmenn almennt með fína skotnýtingu. Lið Tindastóls spilaði hratt en agað í leiknum og fengu ungu strákarnir í hópnum dýrmætar mínútur og stóðu vel fyrir sínu. Þegar upp var staðið voru lokatölur 73-99 og baráttan um sæti í úrslitakeppninni orðin æsispennandi.

Rikki gerði 25 stig í leiknum og Svavar 21 en Cedric Isom var sem fyrr flottur, gerði 16 stig, átti 12 stoðsendingar og tók 9 fráköst.

Feykir náði í skottið á Kalla Jóns, þjálfara Tindastóls, sem tjáði blaðamanni að það getur verið hættulegt að spila á móti liðum sem hafa að engu að keppa, líkt og FSu í gærkvöldi. -„Strákarnir voru vel einbeittir og ég var sérstaklega ánægður með hugarfarið hjá þeim, sem var til fyrirmyndar. Við spiluðum hratt og ákveðið í sókninni og Cedric stjórnaði leiknum mjög vel og fann strákana vel í góðum færum. Vörnin var heilt yfir ágæt, sérstaklega í öðrum leikhluta, þar sem þeir skora aðeins 11 stig. Nú eru tveir leikir eftir og málin áfram í okkar eigin höndum. Það verður stórleikur hér á mánudaginn þegar ÍR-ingar koma í heimsókn. Það væri gaman að fylla Síkið rækilega og búa til góða stemningu sem myndi hjálpa okkur að færast nær úrslitakeppninni.“

Staðan í deildinni er æsispennandi nú þegar tvær umferðir eru eftir. Sex lið geta enn orðið deildarmeistarar og fimm lið berjast um síðustu tvö sætin í úrslitakeppninni. Tindastólsmenn geta með sigri á ÍR hér heima næstkomandi mánudag farið langt með að tryggja sæti í úrslitakeppninni en í síðastu umferð mæta Stólarnir Fjölni á útivelli. Nú er lið Tindastóls í áttunda sæti með 14 stig, jafnmörg og lið Hamars. ÍR og Fjölnir eru í 9. - 10. sæti með 12 stig en liðin mætast einmitt í kvöld. Það er því útlit fyrir háspennu í körfunni.

Stig Tindastóls: Rikki 25, Svavar 21, Cedric 16, Helgi Rafn 12, Axel 10, Halldór 6, Sigmar 4, Donatas 3 og Hreinsi 2.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir