Tindastóll hafði betur í miklum stigaleik
Það var sannkallaður spennuleikur sem fram fór í fyrstu umferð átta liða úrslita Íslandsmótsins í körfubolta í Síkinu í kvöld. Þar áttust við heimamenn í Tindastól og Þór Þorlákshöfn þar sem heimamenn höfðu betur 112 stigum gegn 105. Gestirnir komu mun ákveðnari til leiks í kvöld og greinilegt að þeir ætluðu að selja sig dýrt enda mættu þeir í Fjörðinn í gær og því engin ferðaþreyta að hrjá þá. Náðu þeir strax forystu og komust í 8-0 áður en Stólar náðu að skora sín fyrstu stig þegar tæpar þrjár mínútur voru liðnar af leiknum. Þórsarar í banastuði hittu vel úr þriggja stiga skotum sínum og héldu Stólum tíu stigum frá sér allt til enda fyrsta leikhluta. Staðan 23-33 fyrir gestunum.
Annar hlutinn hófst með látum, Þórsarar með þriggja stiga körfu sem Danero svarar fyrir í sömu mynt en Þórsarar fljótir að henda í eina til. Um miðjan hálfleik er enn tíu stiga munur á liðunum 33-43 en þá kom ágætur kafli heimamanna sem minnkuðu muninn niður í þrjú stig með þristum frá Alawoya, Dino og Axel og staðan 42-45. Það var svo ekki fyrr en ein og hálf mínúta var til leikhlés sem Danero náði að jafna leikinn í fyrsta skiptið með dálaglegum þristi 51-51 en það voru sunnanmenn sem höfðu betur síðustu mínútuna fram að leikhléi. Staðan í hálfleik 53-55 gestunum í vil.
Sama barátta og stigaskor hélst áfram í síðari hálfleik og jafnt á öllum tölum fram í miðjan leikhluta þegar Stólar virtust ætla að taka ágætan sprett 69-66 en Þórsarar náðu að svara fyrir sig og jafna leikinn á ný. Þegar mínúta var eftir voru Stólar yfir 79-77 en gestirnir neituðu að gefast upp og tryggðu sér forustu eftir þrjá leikhluta með tveimur þristum frá Ragnari Erni og Nikolas Tomsick, 79-83.
Nú hófst æsispennandi rimma þar sem engin leið var að sjá út hvort liðið myndi ná að landa sigrinum þar sem þau skiptust á að leiða og staðan jöfn 92-92 að tveimur mínútum liðnum. Þá náðu Stólarnir að hrista Þórsara aðeins frá sér og komust í 102-94 með tveimur vítaskotum Péturs, íleggju Alawoya og þristum frá Dino og Pétri meðan lítið gekk hjá gestunum. Þeir voru þó ekki á því að leggja árar í bát og náðu að jafna á ný 102-102 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir. Þá átti Alawoya enn eina íleggjuna og brotið á honum og vítaskot sem endaði ofaní. Þá náði Brynjar að bæta við einu stigi úr víti og staðan 106-102. Þá var komið að vítaþætti Péturs Rúnars en síðustu stig Stólanna komu frá honum af vítalínunni en Nikolas Tomsick náði þó að laga stöðuna örlítið fyrir gestina með þriggja stiga körfu. Lokatölur 112-105 og Stólar komnir með forystu í einvíginu eftir baráttu sigur.
Það er næsta víst, eins og maðurinn sagði, að Þórsarar verða erfiðir heim að sækja og vísir til alls. Barátta og leikgleði einkenndi leik þeirra og hittni utan þriggja stiga línunnar var á stundum með ólíkindum. Stólarnir virtust ekki með á nótunum fyrstu mínúturnar en misstu þó spræka gestina aldrei langt frá sér og sýndu það í lokin hverjir ætla sér áfram í keppninni.
Alawoya reyndist stigahæstur heimamanna með 27 stig og 30 framlagspunkta, Pétur Rúnar gerði 24 stig með 40 framlagspunkta, Danero var einnig drjúgur í stigaskoruninni með 19 stig og 30 í framlagi sem og Dino sem setti 18 stig.
Í liði gestanna var Nikolas Tomsick langstigahæstur með 39 stig, Halldór Garðar Hermannsson með 18 og Kinu Rochford gerði 16 stig.
Næsti leikur fer fram í Þorlákshöfn á mánudaginn og má þá búast við öðrum baráttuslag. Eru stuðningsmenn Stólanna hvattir til að fjölmenna og styðja við bakið á drengjunum á erfiðum útivelli.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.