Tindastóll fær 20 þúsund í sekt

Aga- og úrskurðarnefnd KKÍ hefur dæmt körfuknattleiksdeild Tindastóls til að greiða 20 þúsund krónur í sekt vegna atviks sem varð eftir leik Tindastóls og Stjörnunnar 16. febrúar sl. Áhorfendur köstuðu flöskum og fleiru lauslegu í átt að dómurum.

Í umræddum leik var mikill hasar og spenningur milli liða og réðust úrslit ekki fyrr en á lokamínútunni þegar Stjarnan náði að stela boltanum og sigrinum. Þóttu dómarar leiksins ekki starfi sínu vaxnir hjá áhorfendum þar sem þeir töldu að Stjörnumenn hefðu gerst brotlegir í atganginum og fengu óspart að heyra það. Þegar leik var lokið og dómarar að yfirgefa salinn tóku einhverjir sig til og hentu flöskum og fleiru lauslegu í átt að þeim sem kærðu athæfið fyrir vikið til aganefndar KKÍ.

-Það þarf engum blöðum um það að fletta að verknaður sem þessi getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir félagið, segir á heimasíðu Tindastóls en segja má að það sleppi með skrekkinn í þetta skiptið því í versta tilfelli gæti það þurft að sæta heimaleikjabanni með tilheyrandi tekjutapi auk sektar.

Körfuknattleiksdeildin vill koma þeirri frómu ósk á framfæri við áhorfendur að gæta þess að svona nokkuð endurtaki sig ekki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir