Tilkynning um þátttöku í prófkjöri Samfylkingarinnar
Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í prófkjöri Samfylkingarinnar, jafnaðarmannaflokks Íslands í Norðvestur kjördæmi sem fram fer 8. – 10. september næstkomandi og sækjast eftir 1. sæti á framboðslista flokksins.
Ég hef búið á landsbyggðinni mestan hluta ævinnar að undanskildum 7 árum í Kópavogi, lengst af á Ísafirði og Akranesi auk eins árs sem ungur maður í Stykkishólmi og þekki því landshlutann giska vel og hagi fólks almennt.
Ég er fæddur á Akureyri 1955, lauk þar stúdentsprófi og fór til náms í félagsráðgjöf í Noregi, stundaði síðar stjórnunarnám í Bandaríkjunum í eitt ár og útskrifaðist um síðir með meistaragráðu í lýðheilsufræðum frá Heilsuháskólanum í Gautaborg í lok árs 2014.
Ég hef starfað í félags- og heilbrigðisþjónustu frá árinu 1979 sem forstöðumaður í öldrunarþjónustu, félagsmálastjóri á Ísafirði og forstjóri Heilbrigðisstofnunarinnar í Ísafjarðarbæ og Heilbrigðisstofnunar Vesturlands en það er núverandi starf. Ég er kvæntur Dýrfinnu Torfadóttur, gullsmið og synirnir eru tveir og barnabörnin fjögur og það fimmta á leiðinni.
Í fjölda ára hef ég verið virkur þátttakandi í félagsstarfi sem tengist heilbrigðis- og velferðarmálum og meðal annars þeim sem tengjast stjórnmálastarfi, þótt ekki hafi það verið með beinum hætti nokkur síðari ár. Ég sat í stjórn Alþýðuflokksfélagsins á Ísafirði á sinni tíð og skipaði 4. sæti á lista Alþýðuflokksins í Vestfjarðakjördæmi til Alþingiskosninga árið 1995. Um þessar mundir er ég formaður félags forstöðumanna sjúkrahúsa á Íslandi, varaformaður Alzheimersamtakanna, sit í stjórn Félags forstöðumanna ríkisstofnana, Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands og Norræna félagsins á Akranesi svo eitthvað sé nefnt.
Að mínu áliti stöndum við á þröskuldi nýrra tíma eftir gríðarlega erfið og krefjandi ár fyrir jafnaðarmenn og okkar baráttumál. Í nauðum þurfti að færa miklar fórnir í stjórnarsamstarfi með VG og margt af því reyndist þungbærara en tárum taki. Undan ábyrgðinni viku jafnaðarmenn sér hinsvegar ekki og sneru taflinu við. Fjölmargt var vel gert en annað átti etv að nálgast með öðrum brag og af því hafa jafnaðarmenn lært. Við blasir ákall um grundvallarbreytingar í samfélaginu og skiptingu gæða, hvort sem litið er til atvinnuhátta, heilbrigðismála, málefna ungs fólks og menntamála, málefna aldraðra og öryrkja, fjölmargra annarra samfélagsverkefna og ekki síst málefna landsbyggðar sem er mitt stóra hugðarefni. Framangreind atriði tengjast henni öll.
Núverandi aðstæður brýna mig til aukinnar þátttöku í pólitísku starfi. Stjórnmálamenn hafa glatað mjög trausti og það er kallað eftir réttlæti og sanngirni gagnvart almennu launafólki. Ég mun leggja mitt af mörkum til að breyta orðræðunni, efla samtalið, vekja áhuga ungs fólks á samfélagsmálum og laða það til aukinnar þátttöku í umræðu um stjórnun landsins með fordómalausum, jákvæðum og glaðværum hætti. Ég mun leggja áherslu á að venjulegt fólk, jafnaðarmenn hvar sem þeir standa í samfélagsstiganum geti fundið sér ákjósanlegan farveg undir okkar merkjum. Í þessa vegferð er ég reiðubúinn af miklum áhuga og leita því eftir stuðningi til að skipa 1. sæti á lista jafnaðarmanna í Norðvesturkjördæmi í komandi þingkosningum.
Guðjón S. Brjánsson, Akranesi
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.