Tilbúin að draga ákvörðun til baka reynist hún röng
Fjölmennur mótmælafundur var haldinn á Blönduósi rétt í þessu en heimamenn voru að mótmæla niðurskurði til Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi. Í máli Einars Óla Fossdal kom fram að íbúar séu ekki tilbúnir að greiða eitthvað sem ráðuneytið telji gamla skuld, sjálf reki ráðherra heimili og hljóti að gera sér grein fyrir að helmingi meiri niðurskurður hér en á öðrum stofnunum sé meira en heimamenn geti sætt sig við. Þeir séu hins vegar alveg tilbúnir að taka á sig sömu skerðingu og aðrar stofnanir.
Álfheiður sagði í upphafi að hún kæmi ekki til fundar með fullar hendur fjár og vildi lítil loforð gefa um framhaldið. Hins vegar komu þingmenn kjördæmisins upp og sögðust hafa tekið höndum saman út fyrir alla flokkapólitík og muni þeir fara fram á fund með ráðherra þar sem farið verði yfir reiknilíkan það sem ráðuneytið styðjist við.
Ásmundur Einar Daðason VG var myrkur í mál og benti á að aðildarumsókn um ESB kostaði á þessu ári 1,5 milljarð. Þá bentu fundarmenn á að Svínvetningarleið kostaði 3 milljarða yrði í hana farið.
Mikil stemning var á fundinum og eftir að þingmenn og heimamenn höfðu brýnt ráðherra gaf hún ögn eftir og sagðist tilbúin að taka ákvörðun um þetta mikinn niðurskurð aftur sé hún röng.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.