Þuríður í þriggja daga mænusprautu
Áfram höldum við að fylgjast með ævintýrum Þuríðar Hörpu í Delhí en nú hefur orðið sú breyting á högum hennar að Árni, maður hennar, er farinn heim en móðir hennar og eiginmaður hennar komin í hans stað. Þuríður er nú í þriggja sólahringa mænusprautum á sjúkrahúsi og sendir Feykir henni góða strauma yfir höfin og alla leið til Indlands.
Dagar 34 og 35
Það að ég hafi trassað að skrifa undanfarið er líklega vegna þess að dagarnir hafa verið hverjum öðrum líkir, vona að hér eftir beri hver dagur eitthvað nýtt og frábært í skauti sínu mér til handa. Á fimmtudaginn tók ég gönguæfingu án efsta partsins af spelkunum þannig að stuðningur við mjaðmir og rass vantaði. Það verður að segjast eins og er að þessi æfing var mög erfið. Allavega fannst sjúkraþjálfanum mínum æfingin ganga þannig að daginn eftir var mjaðma- og rassstuðningur aftur komin á, mér til ómældrar gleði, mikið var þetta nú allt auðveldara þegar mjaðmirnar voru ekki að óþægðast í allar áttir. Á vídeóinu var ég eins og nemandi í fyrsta tíma í magadansi, reyndar svoldið villtar hreyfingar en samt. Eitt var öðru vísi við fimmtudaginn en daginn áður og það var að mamma og Sigurbjörn, maðurinn hennar, voru lögð af stað frá Íslandi og þau áttu að lenda um kl. 11 hér í Delhí á föstudagsmorgun, og jú, nú voru bara þrír dagar þar til Árni færi heim. Ég hlakkaði til þess að hitta þau en kveið fyrir að Árni færi. Ég hef svo sem getað brosað að þessu öllu saman því hefði einhver sagt mér fyrir þrem árum að við Árni ættum eftir að búa saman í einu ljósgrænu herbergi í fimm vikur, og lifa þar eins og við værum í útilegu, nema án grills og grillkjöts og svoleiðis gúmmulaðis, og lifa aðallega á súpum og núðlum þá hefði ég talið það afar skrýtinn spádóm. En þetta er nákvæmlega það sem við upplifum, að vera inni í útilegu. Á föstudagsmorguninn fór Árni á Indira Gandhi flugvöllinn að taka á móti ferðalöngunum. Svo heppilega vill til að við hliðina á hjúkrunarheimilinu er Hótel nokkuð sæmilegt allavega ágæt herbergi og ágæt rúm og þar voru þau bókuð, mjög þægilegt í alla staði að hafa þau svona nálægt. Svo voru þau allt í einu komin og þau komu færandi hendi, mamma dró upp harðfisk og íslenskt smjör, kaffi frá Kaffitári, súkkulaði og konfekt. Þarna leyndist líka pakki frá Ritu, heimagerð dásamleg bláberjasulta, krækiberja- og rabbarbarasulta, rabbarbarakrækiberasulta og haustkex. Takk Rita, það var sko VEISLA hér. Ég fékk annan pakka en systir mín sendi mér þessi flottu sólgleraugu, ég skartaði þeim að sjálfsögðu strax. Takk Þórunnbjörg, ég er sko ekkert smáflott með nýju gleraugun á nefinu hér á götunum. Þau komu sér fyrir á hótelinu og komu svo yfir á hjúkrunarheimilið til að fara með mér niður í seinni parts æfinguna. Dr. Assish hitti mig og sagði mér að á mánudaginn færi ég í þriggja daga mænusprautu, en þá er settur katater sem sprautað er í gegnum 2 á dag, og ég þarf að liggja á maganum í rúminu í þrjá daga með hausinn niður og fæturna upp. Það hefði nú verið betra að þetta hefði klárast áður en Árni færi heim, en svo er ekki, þetta verður líklega upplifun fyrir móður mína að vera með mér á hinu sjúkrahúsinu í þrjá daga svona alveg í byrjun. Ég fór í æfingarnar og lagði mig náttúrlega alla fram um að sína þeim nýkomnu hvað ég væri nú orðin flínk og auðvitað uppskar ég mikla hrifningu, nema mömmu fannst ég ekki alveg jafn grönn og ég sýndist á myndbandinu sem ég setti á netið, þannig að ákveðið var að geyma súkkulaðið sem ég hafði átt að fá bara áfram, ótrúlegt þegar fólk kemur með svona yfirlýsingar. Um kvöldið vorum við ákveðin í að fara á veitingastað hótelsins en hann var á efstu hæð og hægt að borða út undir beru lofti. Mikið var haft fyrir að drösla mér þarna upp þar sem lyftan gekk ekki alveg svona hátt og mikil voru vonbrigði mín yfir þessum veitingastað. Í fyrsta lagi gátum við ekki borðað úti því á hótelinu voru staddir nemendur frá ýmsum löndum sem voru á vegum ríkisstjórna sinna að læra á tölvur í Indlandi. Þetta fólk var með partý á veitingastaðnum þannig að okkur var vísað í innisalinn. Ég er ekkert að ýkja þegar ég segi að ég hafi farið nærri 25 ár aftur í tímann og skyndilega fannst mér ég vera mætt matsalinn í síldarvinnslunni heima á Höfn, nema aðeins þrjú borð voru í salnum sem var afskaplega óvistlegur, málaður með ljósgulri olíumálningu og gólfið dúklagt, ekkert notalegt þarna og engir dúkar á borðum. Við létum okkur hafa þetta og settumst, þjónninn kom hlaupandi með matseðill og við byrjuðum að lesa, jú, jú þetta gat bara orðið ágætt, kannski er maturinn góður. Ég pantaði hvítlauksmarineraðar rækjur
mamma ætlað að velja sér grillaðan fisk og þeir ætluðu í þjóðarréttinn sem er smjörkjúklingur, eða kjúklingabitar í tómat- og smjörsósu, með þessu vildum við fá mikið af hvítlauks nanbrauði. Þjónninn stoppaði okkur mömmu strax í pöntuninni, það er sko ekki hægt að fá fisk hér fyrr en í desember, mamma ætlaði þá í lambið, en þar var nær sama sagan. Erfitt var að fá lambakjöt og þyrftu þeir að vita það með dagsfyrirvara, að við ætluðum að borða það, til að þeir gætu átt það til. Ég endaði á að spyrja hvort við gætum fengið ommolettur, og það var hægt. Okkur tókst að borða þær en ekki meira en svo, skrýtnar þessar eggjakökur hér, annað hvort vantar rauðu í eggin hér á Indlandi eða þá að hún er svona lítil og léleg að hún sést ekki. Þeir voru hinsvegar sáttir með smjörkjúllann og hvítlauksnanbrauðið var í fínu lagi. Desertinn fengum við svo á hótelherberginu hjá mömmu og Sigurbirni, nýuppáhellt, dásamlega bragðgott kaffi frá Kaffitári á Íslandi og íslenskt konfekt með, ég segi það bara og skrifa, Ísland best í heimi.
Dagar 36 og 37
Það var átak að opna augun kl. níu á laugardagsmorguninn en það tókst, við vorum þó bæði hálf tuskuleg þegar við mættum í endurhæfinguna til Shivanni. Laugardagsmorgnar eru þó bestu morgnarnir þó ljótt sé frá að segja því þá eru engin börn í æfingum með okkur. Þessi litlu grey eiga það til að skæla hástöfum og til að dreifa athygli þeirra taka þjálfarnir þeirra stundum upp á því að setja indverska rokktónlist á hæsta styrk inn í þessu litla rými, ó boy, þið getið rétt ímyndað ykkur að maður þráir kyrrð og frið þegar svoleiðis ástand er á bænum.
Æfingin gekk vel og gönguæfingin bara líka, mér finnst samt engir vöðvar vera að bætast í hóp þeirra virku, vildi óska að það færi að gerast og hver veit hvað gerist eftir þriggja daga sprautuna. Árni lyfti mér í síðasta skiptið upp á bekkinn og í síðasta skiptið af honum, næst verða það fjórir litlir kallar sem bægsla mér þarna upp. Eftir hádegi setti Árni niður í töskuna og við pöntuðum leigubíl á flugvöllinn kl. hálffimm á sunnudagsmorguninn, svo fórum við að vekja ferðalangana nýkomnu. Mamma var löngu vöknuð en Sigurbjörn svaf enn. Seinnipartinn fórum við með þau á Green Park svona til að sýna þeim aðalgötuna hér í nágrenninu og Costa kaffi. Árni vildi líka koma við hjá Nitin, indverska manninum sem við höfum kynnst hér, til að kveðja hann. Ég heyrði á þeim nýkomnu að þeim fannst nú ekki mikið til koma um þessar aðalgötu mína hér í Delhí og aftur og aftur báru þau Delhí saman við Dubai, það er að vísu ekki hagstæður samanburður og í raun allsekki hægt að bera þessa staði saman held ég. En kaffið var gott á Costa og þjónustan aldeilis ágæt. Það var svo ekkert auðvelt að sjá á eftir kalli þegar hann fór svo á flugvöllinn um miðja nótt, hann var náttúrlega viss um að hann myndi lenda einhverstaðar allt annar staðar í heiminum en hann ætti að gera, og svo er maður alltaf svoldið nervus við liðið á flugvellinum hér að það hleypi fólki í gegn. Ég var nú samt ekki stressaðri en svo að ég sofnað um leið og Árni var farinn og vaknaði ekki aftur fyrr en mamma vakti mig um ellefu á sunnudagsmorgninum, deginum ákváðum við að eyða í City Walk mollinu og fá okkur eitthvað gott að borða þar á veitingahúsunum þar. Síðan var bara að undirbúa sig fyrir dvölina miklu á hinu sjúkrahúsinu.
Hér eftir verður mamma herbergisfélagi minn, og ég segi nú bara enn og aftur ekki hefði mér dottið í hug að það ætti nú einhverntíman eftir að gerast en svona er þetta, lífið tekur stundum alveg óvænta stefnu. Þessa stundina er hún að búa um sig á gólfinu, þetta er kannski ekki alveg viðeigandi endir á afmælisdegi, en þessi elska á afmæli í dag og er svo ungleg að hún var náttúrlega spurð að því hér hvort hún væri systir mín, sem betur fer spurði maðurinn ekki hvort hún væri yngri systir mín.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.