Þuríður í Delhí tveir síðustu dagarnir
Já hún Þuríður Hapra er í þessum skrifuðu orðum í háloftunum og á heimleið. Hún mun lenda á Íslandi næstu nótt eftir langa og viðburðaríka dvöl á Indlandi.
Dagur 59
Á morgun á morgun, …ég get alveg viðurkennt að ég er eins og barn að bíða eftir jólunum. Kl. hálftíu átti ég að mæta í sprautuna hér inni í Operation Theatre herberginu, ég var sótt kl. tíu og eftir að búið var að koma mér upp á bekkinn tók við bið eftir dr. Ahsish en um hálfellefu mætti karl. Nú átti ég að fá sprautu í vöðva sitthvoru megin við mænu, hann sagði að þessi sprauta ætti að örva blöðruna og vonaðist hann til að ég finndi breytingu eftir að ég kæmi heim. Eftir sprautu lá ég í klukkutíma og svo mátti ég gera hvað sem ég vildi. Eftir hádegi mætti ég snemma í æfinguna, Shivanni fór varlega með mig hún sagði að þó ég finndi ekki til í bakinu eftir sprautuna þýddi það nú ekki að ég gæti bara böðlast áfram, því að öllu eðlilegu myndi ég örugglega finna til þannig að við gerðum engar æfingar sem reyndu mikið á bakið. Ég fékk þó að fara aðeins á göngugrindina og það gekk sæmilega, ég er samt svoldið óörugg, náttúrlega hrædd við að missa jafnvægið og detta. Eftir æfinguna ákváðum við mamma og Sigurbjörn að kíkja í síðasta sinn á Dilli Hat áður en við færum heim. Alltaf gaman að skoða þar og nú var fullt af nýju dóti og nýju fólki, einhvernvegin voru sölumennirnir ekki jafn ágengir og áður þó vissulega væru þarna tveir sem kölluðu á mig og spurðu hvort ég myndi ekki eftir þeim, ég lét sem ég heyrði ekki og ákvað að gefa þeim sko ekki færi á mér. Við vorum komin aftur fyrir sex en Cynthia og Anna mamma hennar eru að fara og við buðum upp á köku í tilefni af því. Ekki vildi betur til en að lyftan bilaði og útlit var fyrir að fáir kæmust í kveðjuveisluna en að lokum hrökk hún þó í gang og liðið mætti. Þær mæðgur hlakka mikið til að fara heim enda búnar að vera hér í þrjá mánuði, Cynthia ráðgerir svo að koma aftur í mars. Eftir þær fóru birtist fjölskyldan frá Ástralíu með fulla poka af flugeldum, mamman var yfir sig æst af spenningi nú skildi sko dúndrað almennilega. Það er bannað að skjóta upp flugeldum í Ástralíu og USA þannig að bæði ástralíubúarnir og fólkið frá USA var mjög spennt að sjá flugeldana. Hér má skjóta upp á hátíðisdögum og í dag er svoleiðis dagur. Við söfnuðumst öll saman úti, einn af hjálparmönnunum hér tók að sér að sprengja upp. Forræðishyggjan tók af mér völdin augnablik þar sem mér fannst frekar hirðuleysislega farið að við að kveikja í rakettunum og enginn var með gleraugu til varnar. Sá innfæddi gaufaði við að kveikja og hvað eftir annað dó á loginn á kveiknum, hann tók þá blysið og skoðaði það í krók og kring, ótrúlegt hvað þeim tekst að skjóta manni skelk í bringu. Allt fór þetta þó vel, blysin voru misjöfn en alveg hrikalegir hvellir frá þeim, við vorum öll orðin hálf heyrnalaus þegar þessu lauk en allir alsælir með sýninguna. Ég var sofnuð um níuleytið, einhvernvegin alveg uppgefin, líklega hefur sprautan haft þessi áhrif. Á morgun, á morgun var það síðasta sem ég man eftir að hafa hugsað áður en ég lognaðist útaf.
Dagur 60
Síðasti dagurinn er loksins komin, ég ligg og hlusta á lífið kvikna hér á hjúkrunarheimlinu, hjúkkurnar eru að hafa vaktaskipti og því fylgir alltaf umgangur og skvaldur. Eins og venjulega fer ég að koma mér fram úr um níuleytið. Mæti í æfinguna kl. tíu, hvað sem ég reyni tekst mér ekki enn að ná sambandi við tærnar en æfingarnar gengu vel og ég er greinilega sterkari í mjöðmum heldur en áður þar sem mér tekst að lyfta hnjánum hærra og af meiri krafti en áður, Shivanni brosti út að eyrum. Síðan var það göngugrindin og eins og áður þá gengur mér sæmilega, fer hænuskref fyrir hænuskref en jafnvægið þarf að verða betra. Síðan fór ég á tvískiptu spelkurnar og nú á ég bara að æfa mig í að standa á þeim og að færa þyngdina fram og aftur og til hliðanna. Shivanni segir að það nægi í bili á meðan ég sé að öðlast jafnvægi og svo komi þessi hreyfing til með að hafa áhrif á mjaðmavöðva en til þess er leikurinn gerður. Eftir hádegi er hefðbundin efripartsæfing. Í kvöld kl. tíu eigum við svo að leggja af stað út á flugvöll en flugið er kl. korter yfir tvö í nótt. Ég vona bara að mér líði betur í þessu langa flugi nú heldur en þegar ég kom.
Það er komin tími á kveðjustund, ég þakka ykkur öllum sem fylgst hafið með blogginu mínu hjartanlega fyrir samfylgdina í þessa tvo mánuði, ég þakka ykkur sem sent hafið mér hvatningarorð og uppörvunarorð á bloggið mitt og í tölvupósti og ég þakka ykkur öllum sem sýnt hafa mér fjárhagslegan stuðning. Án stuðnings ykkar og hvatningar hefði ég ekki komist í þessa ferð. Með vonina í farteskinu fór ég hingað, og með gönguspelkur í farteskinu kem ég heim, er hægt að biðja um meira?
Elsku Herdís, mamma mín og Sigurbjörn, TAKK fyrir hjálpina og takk fyrir að gefa af tíma ykkar til að vera með mér hér.
Ég mun halda áfram að skrifa hér inn það sem á daga mína drífur og ég hlakka mikið til að takast á við nýjar áskoranir þegar heim kemur en fyrst og fremst hlakka ég þó til þess að hitta manninn minn, fjölskyldu mína, systkini, pabba, tengdamömmu og vini.
Sjáumst á landinu mínu kalda )
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.