Þuríður í Delhí - Þrír dagar af ævintýrum

Búin að vera hér í viku og ný vika á morgun, tíminn verður líklega ekkert svo lengi að líða hérna í þetta sinn. Sannkallað letilíf á okkur mæðgum í dag, enda leyfði ég mér að lesa langt fram á nótt í þriðju bókinni eftir Stieg Larson, ákvað um jólin að lesa hana hér úti.
Það var svo sem ekki hægt að fara að sofa snemma í gærkvöldi, í einni íbúðinni í húsinu á móti okkur var þetta rosa partý, með miklum söng og gleðilátum fram eftir nóttu og hinu megin við mig var bráðum 63 ára gömul kona mjög upptekin í tölvuleik, og svo er ég að skammast út í unglinginn minn sem er heldur mikið í tölvuleikjum ;o)

Við komum okkur niður um þrjúleitið, svona að kíkja á sólina sem sannarlega var á sínum stað, allt var með kyrrum kjörum og líklega flestir samleigjendur mínir farnir eitthvað út á lífið, allavega rákumst við ekki á neinn. Úti sátu 3 á rabbi og sleiktu sólina, við pöntuðum bíl og ákváðum að eyða því sem eftir væri dags í Lodi garðinum en hann er einn stærsti og elsti almenningsgarðurinn hér, með æfafornum trjám og moskum. En elsta moskan er byggð af Sikander Lodi. Garðurinn heitir svo eftir honum nú en var endurnefndur þegar Indland varð lýðveldi árið 1947. Áður hafði garðurinn heitið í höfuðið á lady Willingdon sem var kona Governor-General of India þar sem hún hafði hannað garðinn sem var svo aftur endurhannaður í kringum 1968.

Garðurinn er byrjaður að blómsta enda er veturinn búin í febrúarlok og sumarið tekur við í mars. Indverjar nota garðinn mikið og fjöldinn allur af stórfjölskyldum var í lautarferð í garðinum. Fólkið kunni svo sannarlega að skemmta sér og sínum þar sem fullorðna fólkið skipulagði leiki, reipitog, boltaleiki og fl. með börnum sínum. Konurnar sýsluðu við gaskúta en þeirra hlutverk var að sjá til þess að nóg væri að borða og drekka. Allir voru innilega afslappaðir, glaðir og notalegheitin einhvernveginn lágu í loftinu. Einn og einn joggari fór í rólegheitum fram hjá okkur, ástfangin pör sátu aðeins afsíðis og hópur blindra leiddist um garðinn í átt að tignarlegri bogabrú sem staðsett er yfir fallegt síki. Á síkinu syntu hvítar endur og gæsir. Marglit blóm og lítil börn, mömmur í litríkum saríum eða bara gallabuxum og bol, pabbar í boltaleik við börnin sín. Engin læti og ekkert flaut, garðurinn er sannkallaður afslöppunarreitur í stórborginni Delhí. Flækingshundur lá hundlatur undir tré og nennti ekki einu sinni að líta upp þegar ég hjólaði fram hjá. Fjölskyldan er indverjum mjög mikils virði og hún er oft ástæða þess að indverjar koma aftur heim til Delhí eftir dvöl erlendis við nám eða störf, þeir sem ég hef talað við segjast bara vilja vera þar sem stórfjölskyldan er, enda er mannmargt hér. Við vorum fljótari í gegnum garðinn enn við áætluðum og ákváðum að kíkja á Lodi restaurantinn sem því miður var lokaður til sex. Það var þá ekki annað að gera en að kaupa flögur og kók af vagnsjoppusalanum og halda inn í garðinn aftur. Ég hringdi svo í leigubílinn um hálfsex enda aðeins farið að rökkva, bílstjórnn mætti strax á litla, hvíta og beyglaða bílnum sínum. Ég átti í engum vandræðum með að koma mér inn þó mig klígjaði við því að halda í kámugt lofthandfangið sem var svart af skít. Inni í bílnum var megn dýralykt, í glugganum dingluðu tvö rauð hjörtu sem á stóð I love you og á milli þeirra dinglaði spjald með mynd af átrúnaðarguði bílstjórans. Við komumst vandræðalaust á leiðarenda þrátt fyrir að bíllinn gengi eins og gamall vanstilltur traktor. Að vísu gat bílstjórinn ekki skrúfað upp rúðuna sín megin né opnað hurðina þar sem hún virtist hafa læst og ekki var hægt að opna hana innan frá. Sigurbjörn bjargaði manninum út með því að fá lyklana lánaða og opna utan frá. Fyrir fjóra tímana borgum við 400 rúbíur sem samsvara sirka 12oo ísl. krónum. Ekki veit ég hvaða tímakaup maðurinn er á en ég veit að bensínið er í kringum 130 kr. ísl.  ltr.

Mamma framreiddi afganginn af Ora fiskibollunum og spaghettíinu með hvítlauk út á, það þýðir ekkert annað en að klára úr dósunum þó fiskibollurnar hafi verið góðar í gærkvöldi er ekki jafnspennandi að borða þær í kvöld. Ég hugsa líka að hjúkkunum þyki nóg um hvítlauksfýluna af mér, allavega tek ég eftir að þær eru farnar að standa eins langt frá mér og þær geta þegar þær eru að sprauta og mæla blóðþrýstinginn. Spurning að taka mér frí frá hvítlauknum. Fyrri myndin hér að ofan sýnir mann að flytja stóla á reiðhjóli, með kerru og hin er af mér þar sem ég reyni að fá smá lit á hvíta leggina.


Sveimérþá ef ælupest er ekki bara orðin vikuleg venja

Ég er sko búin að fá nóg af ælupest, nákvæmlega viku eftir síðustu ælupest hófst hún aftur hjá mér og varði vel fram á morgunn, eitt orð yfir þetta, hryllilegt. Sem betur fer náði ég að sofna aðeins eftir kl. tíu  í morgun til eitt og var þá bara nokkuð brött en þetta þýddi að ég komst ekki í æfingarnar. Eftir hádegi sátum við bara hér úti í 26 stiga hita og sól. Fylgdumst með mannlífinu sem er alveg ótrúlega skrautlegt og fjölbreytt, hér er allt til. Út úr fínum jeppum stigu vel klæddir karlar í Lacoste peysum í sömu andrá og maður með einhverskonar druslu á hausnum hjólaði fram hjá á forngrip með fjóra gamaldags mjólkurbrúsa hangandi utan á.

Eitt vakti sérstaka athygli okkar og það var hvað Indverjum virðist vera kalt núna. Margir eru klæddir í sannkallaðar vetrarúlpur og konurnar eru iðulega í peysum utan yfir Saríinn og svo með stórt kasmírullarsjal vafið um sig að auki. Við íslendingarnir nutum hinsvegar veðurblíðunnar eins fáklædd og við þorðum að vera þ.e. berhandleggjuð og með buxurnar togaðar  vel upp fyrir hné og var okkur vel heitt.

Eftir að hafa verið úti í sólinni frá hálftvö til nærri fimm í dag fórum við inn enda farið að dimma, mamma var farin að spá í kvöldmatinn og var ákveðið að hafa Ora fiskibollur úr dós og Heins spaghettí líka úr dós. Út á þetta settum við svo marinn hvítlauk í olí, ég bara segi það, betri mat hef ég ekki fengið síðan ég fór að heiman. Líklega hef ég einfaldan matarsmekk, en hvítlaukur er það sem bjargar öllu. Maturinn kom svo um sjöleytið frá hinu sjúkrahúsinu, í matinn var fiskur í einhverri þunnri súpu og allskonar grænmeti svissað upp úr tómatsósu held ég, með þessu var hrátt salat, grænt og fallegt með eldrauðum nærri dökkbleikum gulrótum. Ég hafði mig ekki í fiskinn en smakkaði grænmetið, bæði það hráa og það steikta, hvortveggja var bara gott á bragðið. Í eftirrétt voru sítrónur héldum við, allavega litu þær út eins og óþroskaðar grænar sítrónur, við opnuðum ávöxtinn og komumst að því að þetta voru þessar fínu dísætu appelsínur. Svei mér þá ef maturinn er bara ekki að verða betri hér eða að ég er að breytast eitthvað.

Hér þvoði mamma stórþvott í morgun í höndunum og svo var hengt út á svalirnar, mikill munur að hafa þessar svalir þó svo að ég komist ekki út á þær. Ég bíð eftir að finna einhverja breytingu að vísu fannst mér í gær að ég hefði meiri tilfinningu í fótunum en áður, í dag er ég ekki svo viss. Það er svo undarlegt hvernig breytingar koma fram hjá mér án þess að ég verði vör við þær, svo allt í einu fatta ég að eitthvað hefur breyst. Ég get kannski líkt þessu við það þegar fólk fitnar eða leggur af, það finnur ekki að það hafi fitnað fyrr en það sér það á vigtinni eða passar ekki lengur í fötin sín. Einhvernveginn svoleiðis koma breytingarnar fram hjá mér. Ég hlakka til að spreyta mig á jafnvægisboltanum og dýnunni áfram, þetta er hvortveggja miklar áskoranir og bara frábært að takast á við eitthvað nýtt, það verður líka auðvelt að bera saman breytingu frá degi 1 og á degi 28 þegar þar að kemur.


Verð bara að segja að allt er auðveldara hér núna

Það er bara einhvernveginn þannig, ég mætti til Shivanni í morgun og tók þessar venjulegu æfingar og svo jafnvægisboltann, hann er sko ekkert lamb að leika sér við og ef mér tekst einhverntíman að ná góðu jafnvægi á honum þá held ég að mér takist nú flest. Eftir æfinguna hafði ég hálftíma til að koma mér í sturtu áður en bíllinn kæmi til að flytja mig og föruneyti á hinn spítalann. Það gekk einhvernveginn með góðri hjálp frá mömmu, hún ber hitan og þungan af því að pakka fyrir spítalaferðir sem og aðrar ferðir. Svo var þotið af stað, fyrst keyrðum við á móti umferðinni og einbreiðri akrein og það rifjaði sannarlega upp minningar frá því síðast, við skiljum bara ekki hvernig menn fara að því að keyra svona þröngt, það er allvega það þröngt að ég með minn sæmilega breiða rass gæti setið í tveim bílum með sitthvora löppina inn í sitthvorum bílnum, skiljiði. Svo var keyrt í gegnum hverfi sem er algjörlega yfirhlaðið af fólki, smá verslunum, matsölustöðum, allt svona pínulitlar einingar. Drengur um það bil 10 ára vakti athygli mína þar sem hann streðaði við að hjóla fullri kerru af rusli um götuna, í þessu hverfi er þetta dæmigerður ruslabíll. Fólk kemst af með ótrúlega lítið hér, þetta þætti undarlegt á Íslandi. Á hinu sjúkrahúsinu mættum við hr. David sem bauð okkur velkomin, sýndi okkur verustaðinn með rúminu sem er nærri svo hátt að ég gæti hjólað undir það. Allt fór fram eins og venjulega, hjúkkurnar komu til að setja upp drippið hjá mér sem tókst að lokum eftir mikla leit þeirra að æð til að setja nálina í. Þær eru reyndar algjörir snillingar í því að koma fyrir svona nálum í manni. Ég er orðin reynslunni ríkari og þegar þessu var lokið bað ég þær vinsamlegast um þvagpoka, minnug hrellinga frá fyrstu ferðinni þegar drippið flæddi bara beint í gegn hjá mér og ég sko ekki með poka. Heldur óskemmtileg lífsreynsla það. Svo eins komu bláklæddu gaurarnir til að fara með mig á aðgerðarstofuna, sem er í raun skurðstofa. Eins og áður er mér keyrt inn á aðgerðarstofuna og bláu gaurarnir vippa mér yfir á bekkinn, allt eitthvað svo kunnuglegt, andlitin þau sömu og áður og það er svo skrýtið að það er léttir, þeir þekkja mig og ég þekki þá. Dr. Ashish heilsar mér með virktum, spyr mig útúr og segir mér svo að ég muni koma nokkrum sinnum í stórar sprautur í þessari ferð. Ekki fékk ég að vita hvað margar samt. Hann segist sprauta mig núna á svæði frá T7 hryggjarlið en það er svæðið þar sem skaðinn er og niður á T9 hryggjarliðinn. Mér var vippað á hliðina og sett í kuðung með fæturna upp að höku og hökuna niður að brjósti og þannig hélt einn aðstoðarmaðurinn mér. Ég held að ég hafi hreinlega heyrt þegar nálin skrapaðist í hryggjarlið, nokkrum sinnum, síðan kom þessi svaka herpingur í magavöðvana þannig að ég náði ekki andanum í smá stund. Svo leið það hjá, eftir sprautuna fannst mér ég vera hálfþrútin í augunum en allt var í lagi, enginn höfuðverkur og engin ógleði eða svimi, mér var trillað inn á herbergið, eins og áður hoppaði einn aðstoðarmaðurinn upp í til mín og dró mig yfir í rúmið meðan annar ýtti á eftir. Múrsteinarnir voru settir undir fótagaflinn til að hækka hann upp og þarna átti ég að liggja í fimm og hálfan tíma hreyfingarlaust. Svo sem ágætt en undir lokin var ég orðin ansi þreytt í bakinu og nánast með verki. Það var því gott að geta sest aftur upp þegar heimferðatíminn kom. Hr. David sagði mér að ég myndi koma aftur í sprautu um miðja næstu viku og líklega verður það sprauta þar sem sprautað er inn í mænu. Á morgun er mæting í æfingar kl. 9 en frí eftir hádegi ef ég man rétt. Það er eins gott að vera sæmilega spræk því bæði dýnan og jafnvægisboltin eru erfið og ég þarf að halda svoldið vel á spöðunum ef ég ætla að ná einhverju jafnvægi á þessum tækjum.

ES Elsku Birna mín til hamingju með stóra strákin, varstu ekki á fæðingardeildinni fyrir 18 árum;o)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir