Þuríður í Delhí - Það hefur ýmislegt áunnist
Stundum verð ég svoldið svekkt yfir að hreyfingin og stöðugleikinn sem var í gær sé ekki í dag. Stundum verð ég líka voða kát þegar æfingarnar í dag ganga svo miklu betur en í gær og mér tekst að gera hluti sem ég gat alls ekki gert fyrir 7 mánuðum síðan. Þegar á heildina er litið þá hefur líkamlegt ástand mitt tekið ótrúlegum framförum. Hlutir sem ég gat bara alls ekki gert þegar ég kom hingað fyrst er nánast auðveldir í dag t.d. að komast upp í rúmið án þess að hafa færslubretti, geta farið í sturtu án þess að fá hjálp, komast inn og út úr sumum bílum án brettis, geta fært bílsæti fram og aftur sjálf þegar ég sit í því OG það var hlutur sem ég alls ekki gat gert. Ég er bara svo miklu færari um að hugsa um sjálfa mig en áður. Eins og ég hef áður sagt hér á síðunni þá eru það hreint ótrúlegt að örlítil breyting, örlítil hreyfing breytir svo ótrúlega miklu fyrir mig. Sú ákvörðun að fara í þessa meðferð hér í Delhí er líklega ein sú gáfulegasta og besta sem ég tekið um æfina. Í dag get ég spyrnt fæti örlítið og dregið hann hann að mér örlítið og örlítil ökklahreyfing er farin að láta á sér kræla. Það að geta farið upp á fjóra fætur er líka í mínum huga kraftaverki líkast, ég hélt ég myndi aldrei geta það og að sitja á jafnvægisbolta fannst mér að væri útilokað. Maður á aldrei að segja aldrei, það hefur lífið kennt mér, um leið og það kenndi mér að ég ræð svo afskaplega litlu um hvað kemur fyrir mig.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.