Þuríður í Delhí -Síðasti þriðjudagurinn

Ég hef líklega sofið eins og rotuð þar til fuglastríðið hófst enn einn morguninn á glugganum hjá mér, ég er satt að segja orðin dauðleið á að vakna við bankið og skrækina, en hvað get ég gert. Eftir að hafa gúffað í mig brauðsneið með sardínum, sem ég trúi að séu fullar af ofurhollum efnum og kaffi sem ég trúi að sé mér algjör nauðsyn, fór ég niður í æfingar, eiginlega bara svoldið kát yfir að eiga þess kost að mæta bæði fyrir og eftir hádegi í dag.

Við fórum í gegnum venulegar æfingar á bekk og niðurstaðan var sú að ég var einhvernveginn sterkari, Shivanni fann mun og útskýrði hann fyrir mér á afar jákvæðan hátt að venju. Boltinn gekk líka vel nema ég var eitthvað drusluleg, svimaði og leið hálf einkennilega. Mér tókst samt vel upp á boltanum en ákvað að lokum að líklega væri best að fara í stólinn og bíða þess að sviminn og súrefnisleysið liði hjá. Eftir stutta viðkomu í sólinni fór ég upp á herbergi og upp í rúm, ég var ekki eins og ég átti að mér að vera. Eftir að hafa sofnað, borðað súkkulaði og súpu fannst mér að ég væri öll skárri  en ákvað fyrir úrtölur móður minnar að láta mæla blóðþrýstinginn áður en ég færi í æfingarnar. Hann var svona í lægri kantinum hjá mér eða 100 yfir 60. Ég ákvað að fara samt í æfingar og sjá hvort þetta væri ekki bara liðið hjá. Ég fór á göngugrindina og þrátt fyrir að hafa ekki farið á hana í nær viku þá gekk mér betur en síðast, einhvernvegin var auðveldara að færa núna hægri fótinn sem hefur hingað til verið mér ansi erfiður, við vorum báðar ánægðar með þetta Shivanni og ég. Svo voru tvískiptu spelkurnar spenntar á mig og mér brunað í minni göngubrautina, ég var enga stund að vippa mér upp á fæturna og við mér blasti spegilmynd mín. Ég get ekki sagt annað en að ég var fáránleg, hnén gengu þónokkuð út og mjaðmirnar signar einhvernveginn fram og niður, annar fóturinn nærri öfugur og svo átti ég að labba á þessu. Erfið voru sporin áfram en eins og áður gekk mér glimrandi að labba aftur á bak. Þetta var samt í heildina allt í áttina og sannarlega betra en fyrst eftir að ég kom. Dýnuæfingarnar voru sæmilegar líka, og nú er ég ekki jafn þreytt þegar ég er búin í þeim, mér tókst meira að segja sæmilega til með að lyfta höndunum í svona 2 tll 3 skipti. Ég hitti dr. Geetu eftir æfingarnar og spurði hana hvort ég ætti nokkuð eftir fleiri stórar sprautur. Hvenær ferðu, spurði hún, ég sagði henni það og þá svaraði hún að ég ætti nær örugglega eftir eina í viðbót. Hún hlýtur þá að vera framkvæmd hér. Vonandi.



Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir