Þuríður í Delhí - helgin 22. og 23. ágúst

Þuríður Harpa bloggar frá Delhí

Við höldum áfram að fylgjast með Þuríði Hörpu en að þessu sinni bloggar hún um helgina sem leið. Helgin var tíðindalítil enda Þuríður hálf slöpp og fór helgin að mestu í sjónvarpsgláp og rólegheit. Eins og áður minnum við ykkur á að vera duglega að halda verkefninu Óskasteinn hátt á lofti því enn eru margir steinar óseldir.

 

Sunnudagskvöld og helgin að verða búin, hún var það tilbreytingalítil hjá okkur að ég skrifa tvo daga saman núna. Eftir morgunæfinguna á laugardagsmorguninn fékk ég stofnfrumudripp í æð, fljótlega fór ég að finna fyrir óþægindum, finna  til í augunum, var kalt og fékk höfuðverk og beinverki, og er búin að vera þannig þar til núna í kvöld. Mér skilst að þetta sé alvanalegt að fólk verði veikt af stofnfrumudrippinu, en ég hef sloppið þessar þrjár vikur sem ég hef verið hér þannig að mér er ekki vorkun. Verst er þó hvað heimurinn verður rosalega smár þegar maður hangir hér inní eiturgrænu herberginu tvo daga í röð. Það sem bjargar okkur er að geta glápt á sjónvarpið sem er hér í gangi allan liðlangan daginn og höfum við úr þónokkrum fjölda stöðva að velja, við horfum samt mest á bíórásina. Í vikunni sem er að byrja á ég að fara í stofnfrumusprautu á hitt sjúkrahúsið, ég er þó undirbúin fyrir þau ósköp núna og hef vit á að taka með mér einhverjar pjötlur utan á mig. Vona bara að ég verði ekki veik.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir