Þuríður í Delhí dagur tvö

Herbergið sem mér var úthlutað núna er svo mikið betra en það sem ég fékk síðast, ótrúlegt hvað betra skipulag, gluggi inn á baði og svalir sem hægt er að opna út á, geta gert. Annars hófst morguninn hjá okkur eins og í hryllingsmyndasenu eftir Hitchcock.
Í svefnrofanum heyrði ég skothvelli sem breyttust svo í æðisgengið bank, smásaman vaknaði ég en hélt samt að ég væri jafnvel sofandi. Inn um gluggan bárust skaðræðis skrækir og vein í bland við ákaft bankið á gluggann. Ég opnaði augun og hentist upp til að sjá hvað gengi á, út um gluggann sá ég svart ský fugla sem steyptu sér í áttina að mér, fimlega flugu þeir nær lóðrétt upp meðfram glugganum. Á eftir þeim voru krákur og ein þeirra tyllti sér á svalirnar, þrír vesalings smáfuglar börðu goggum og vængjum örvæntingarfullt í gluggann og skópu með því þetta æðisgengna bank. Mamma kom að glugganum og reyndi að fæla fuglana í burtu með því að banka á móti en allt kom fyrir ekki. Krákan spígsporaði ógnandi á svalahandriðinu og glápti gráðugum augum á smáfuglana sem linntu ekki látunum. Þá var mömmu nóg boðið, í morgunskímunni baðaði hún út berum handleggjunum og blakaði þeim ákaft, eins og fiðurlaus fugl á leið í loftið. Þetta nægði, krákunni ofbauð sjónin og hafði sig á brott, smáfuglarnir voru skelfingu lostnir, þeir vissu ekki hvor krákan var hættulegri sú hvíta eða sú svarta, eftir augnablik áttuðu þeir sig og flugu frjálsir út í loftið. Við mamma sátum eftir  hlið við hlið innan við gluggann yfirkomnar eftir átökin, einhvernvegin orðnar þáttakendur í fuglastríðinu. Klukkan var langt gengin í sex og ákváðum við að reyna að sofna aftur til kl. átta. Hálfþreytulegar mættum við í endurhæfinguna kl. níu, annar sjúkraþjálfi leysti Shivanni af í dag þar sem hún er að klára síðasta daginn með Rusty. Sjúkraþjálfinn fór í gegnum æfingarnar með mér svona til að sjá hvort ég hefði nokkru gleymt, kastaði boltanum nokkrum sinnum til mín til að sjá jafnvægið og sagði mér svo að mæta í gönguna eftir hádegið. Við vorum ákveðnar í að leggja okkur aðeins meira og drifum okkur inn á herbergi, ég fékk stofnfrumusprautu og eftir hádegið var tekin blóðprufa og mér gert að skila þvaprufu.

Að skilum loknum fór ég niður í gönguna, ég var býsna sperrt þegar ég hoppaði á spelkuðum fótunum niður af rúminu og ríghélt mér í nýju bláu göngugrindina sem er með litlum hjólum að framan. Sjúkraþjálfanum fannst ég örugglega fara svoldið geyst af stað og fékk annan til liðs við sig til að vera við hina hliðina á mér og halda um grindina þannig að hún skriði ekki undan mér. Ég geystist af stað en uppgötvaði fljótlega að grindin var aðeins öðruvísi en sú sem ég æfi mig á heima, ég þarf smá tíma til að komsast upp á lag með að beita mér í henni, annars er svæðið sem ég get gengið á of lítið, mestur tíminn og orkan fer í að snúa mér við, hugsið ykkur eins og það var nú auðvelt þegar ég hafði lappirnar í lagi, nú útheimtir snúningur þónokkuð af þreki og helling af svita. Þetta gekk samt allt vel og að launum var mér hrósað í hástert fyrir frammistöðuna og auðvitað gengst maður upp í því. Rígmontin hélt ég af stað út úr endurhæfingunni og ákvað að kíkja aðeins út. Eins og áður er mér trillað niður í heljarinnar vörulyftu sem ábúðarfullur dyravörður stjórnar af mikilli ábyrgð. Það er bara notalegt að sitja úti núna, hitinn nokk mátulegur, mætti jafnvel vera meiri og gott væri að fá örlitla sól svona rétt til að lita á mér hvítt snáldrið (já, það er þetta með hégómann). Heima er víst snjór núna sem kom strax eftir að ég fór – ég vona að vorið taki á móti mér þegar ég kem heim aftur, ég vil helst ekki hafa snjó nema rétt yfir jólin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir