Þuríður í Delhí dagur 6 - 9

Þuríður Harpa bloggar frá Delhí

Áfram fylgjumst við með ævintýrum Þuríðar Hörpu sem nú dvelur í Delhí á Indlandi þar sem hún gengst undir stofnfrumumeðferð. Þegar hér er komið sögu er dvölin öll á uppleið og læknirinn farin að búast við árangri. Sjálf er Þuríður ekki frá því að greinileg hreyfing hafi sést. Hægt er að fylgjast með jafnóðum nú eða styrkja ferð Þuríðar á heimasíðu hennar www.oskasteinn.com

Dagur 6

Ekkert sérstakt er á dagskrá í dag, við sofnuðum gjörsamlega úrvinda í gærkvöldi eftir ferðina til Taj Mahal. Það var algjör sæla að komast í sturtu eftir þann dag því sjaldan hef ég svitnað jafn heiftarlega og í gær og aldrei hef ég sets að snæðingi og þurft að hafa bréfþurrku tiltæka til að þurrka af mér svitann af andliti og handleggjum sem hreinlega flæddi um mig. Sömu sögu var að segja af Herdísi og Árna. Við vorum eins og hundar af sundi dregin, gjörsamlega gegnblaut af svita.

Í dag er endurhæfing kl. 10 svo sprauta og svo hádegismatur. Eftir hádegi ætla ég að liggja fyrir með bókina eftir Lisu Marklund og hvíla mig því ég virðist hafa náð mér í vott af flensu, samt ekki svínapestinni, en Árni og Herdís ætla í leiðangur út í hitann að leita að verslunargötu sem á að vera hér stutt frá, ástralirnir sögðu okkur að sú gata væri ágætlega hjólastólafær og svo fengist þar gott kaffi, pizzur hjá Pizza Hut, Mac Donalds og fleira. Þegar þau fóru í leiðangurinn kom pínu regnúði, innfæddir hér vona að þeir verði blessaðir með rigningunni og bíða hennar orðið vonlitlir. Ég held að ekki fari vel um fólkið í kofarægsnunum ef mikil rigning kemur, en það er nú annað mál. Læknirinn kemur hér á hverjum degi til að tékka á hvort ég hafi ekki fundið einhverjar breytingar enn sem ég hef ekki fundið. Þeir vilja samt meina að ég gæti fundið breytingu frá fyrsta degi sem mér finnst ótrúlegt því ég hélt að frumurnar þyrftu einhvern tíma til að finna sitt svæði og breyta sér, en svo er víst ekki, svo ég bíð bara spennt. Þau komu til baka úr leiðangrinum og sögðust hafa fundið þessa fínu götu sem gaman væri að koma á. Við setjum stefnuna á að fara þangað á morgun, en á laugardaginni ætlum við að skoða gömlu Delhí og er Jody okkur innan handar eins og áður með að panta bíl og góðan bílstjóra. Á sunnudaginn erum við að spá í að fara á markað og á þriðjudaginn ætlum við að skoða stað sem ég man nú ekki hvað heitir en þar fáum við leiðsögumann með okkur. Í kvöld voru ástralirnir að kveðja okkur  þau Harry, Gail og dóttir Harrys en hún er með ættgengann vöðvarýrnunarsjúkdóm. Hún er í hjólastól en hefur enn mátt í flestum vöðuvum henni tekst að halda niðri sjúkdómnum með þessari meðferð. Við hittumst öll sem gátum komið í andyrinu og gæddum okkur á tertum sem voru í boði Amyar þeirrar japönsku. Fjögur af sjúklingunum voru búin að vera í stórri spraut inn í mænu á hinu sjúkrahúsinu og voru 3 þeirra að jafna sig en eitt hafði fengið hita og var þar enn. Við eigum eftir að sakna ástralíubúanna þar sem þau tóku okkur eiginlega upp á sína arma mjög fljótt og kynntu okkur við hverju við mættum búast o.s.frv.



Dagur 6

Dagur 7

Við erum orðin værukær og förum ekki á fætur fyrr en bankað er á dyr hér um kl. níu, þá mæta hjúkkurnar til að mæla blóðþrýsting og hita og gefa mér sýklalyf í æð. Í gær komu niðurstöður úr sýni sem hafði verið tekið hjá mér og reyndar var þetta sýking sem ég hafði oft fengið áður og heima á Íslandi fæ ég bara eina pillu við henni og allt kemst í lag. Hér var byrjað á að senda einn af vinnumönnunum hér í apótek í gærkvöldi til að ná í réttu lyfin. Hann kom til baka með fullann poka af litlum meðalaglösum og töflur. Mér leist nú hreint ekki á en lyfin voru ódýr eða um 350 ísl. krónur. Síðan útskýrðu hjúkkurnar að þær yrðu að setja upp æðalegg í hendina á mér og næstu 3 sólarhringa fengi ég 2 sprautur 2 sinnum á dag þar í gegn. Mér leið eins og ég hlyti að vera bara alvarlega veik. Ég reyndi að spyrja lækninn hvað hefði eiginlega verið að mér en verð að játa að ég hreinlega skildi hann ekki. Þær komu og dældu þessu í mig skipuðu mér að taka töflu með þessu og svo vítamín sem þær komu með líka. Í morgun bættu þær enn um betur og komum með fullann poka af vítamínum og reikning sem var örlítið hærri en í gær. Ég skoðaði vítamínin og sagði þeim svo að ég væri með þetta allt með mér, þær létu gott heita en vildu fá að sjá vítamínglösin. Lásu þær samviskulega yfir innihaldið og fóru svo. Ég fór í endurhæfingu kl. 10 og var nú á bekk með mun harðari dýnu þar sem ekkert pláss var inn í sjálfum salnum, Herdís hafði á orði að svona þrengsli kannaðist hún við frá sínum vinnustað. Þegar sjúkraþjálfinn minn var búin að hreyfa mig hraustlega kom dr. Geeta inn hún vildi fá að sjá hvernig mér gengi, eftir smá stund tók hún yfir stillti annan fótinn á mér af þannig að hnéð var upp og fóturinn sjálfur hvíldi á dýnunni, svo skipaði hún mér að halda fætinum svona, það gekk nú svoldið brösulega, ég remdist alveg kófsveitt við að reyna að halda fætinum og stundum tókst það bara ég kallaði í Herdísi að koma og tékka á þessu, hélt kannski að Geeta héldi bara fætinum. Hún kom og fylgdist með, ég var látin reyna að hreyfa hnén í sitthvora áttina og fannst mér ég nota mjöðm og það sem virkt er af bolvöðvum til að framkalla hreyfinguna í sitt hvora áttina. Geeta hinsvegar staðhæfir að mér sé að fara fram. Svo átti ég að hreyfa tærnar og reyna að spenna vöðva í fætinum. Herdís setti fingur á þetta allt til að finn hvort hún finndi hreyfingu. Hún sagði að þessu loknu að hún væri ekki frá því að hún hefði fundið örlitla vöðvaspennu. Hún gat alla vega ekki útilokað að svo hefði verið.  Jebb kannski eru bara spennandi hlutir að gerast. Doktorinn var allavega bísna viss í sinni sök að ég væri örugglega í framför. Já og hún er búin að skipa mér að reyna að pissa sjálf, hmmm ég náttúrlega reyni en ekkert hefur enn breyst þar.

Eftir hádegi ákváðum við að halda upp á þetta litla KANNSKI-ER-HREYFING með því að fara á kaffihúsið. Við komum út í hitasvækjuna og eftir smá stund var mig farið að svíða í augun af birtunni, sem er þó allsekki neitt ofboðsleg þar sem yfirleitt er skýjað. Þau brunuðu mér eftir götunni á móti allri umferðinni og lagði ég það til að við keyptum flautu á hjólastólinn svo ég gæti flautað eins og aðrir í umferðinni. Eftir smá spöl komum við að ljósum þar sem við þurftum að sæta færis til að komast yfir. Svo vorum við komin í þessa ljómandi fallegu götu sem líklega er lokuð á kvöldin. Í þessari götu voru allskonar verslanir og íbúðir allt leit þetta mjög þokkalega út, ég varð afskaplega glöð þegar ég sá kaffihúsið, þó það væru snarbrattar tröppur upp í það. Árni og Herdís bisuðu mér í stólnum upp og inn komum við í býsna evrópskt umhverfi, fallegur staður með stórum flottum svarthvítum ljósmyndum á veggjunum. Við kíktum í borðið og völdum okkur súkkulaðiköku og Árni valdi sér súkkulaðimuffins. Herdís pantaði lítinn bolla af cappucino en við Árni fengum medium en hægt var að velja um fjórar stærðir, extra small, small, medium og large. Eftir stutta stund kom kaffið við bara gláptum á bollanan. Herdísarbolli sem var small var eins og kakóbolli á kaffihúsi heima, mediumbollarnir okkar voru eins og súpubollar og þegar við kíktum á large bollann þá var hann talsvert stærri. Kaffið var gott og súkkulaðikökurnar himneskar. Síðan ákváðum við að skoða meira, ég álpaðist inní gleraugnabúð, til að skoða sólgleraugu. Þarna voru sólgleraugu sem kostuðu yfir 100.000 ísl. krónur, við mátuðum og mátuðum, Armani, Guess, Cartier, Ray Ban og hvað þetta nú allt saman heitir. En þegar við útskýrðum fyrir sölumanninum að þetta væri of dýrt fyrir okkur var hann fljótur til lét rétta sér kassa með ódýrari gleraugum og eftir smá stund keyrði ég út úr búðinni með rauð sólgleraugu á nefinu. Við vorum ánægð með að hafa svona götu í næsta nágrenni, og líklega eigum við eftir að koma þarna í nokkur skipti til viðbótar meðan við verðum hér.

Dagur 8

Laugardagur runninn upp, allt með venjulegum hætti, blóðþrýstingur mældur, endurhæfing og svo stofnfrumuskotið mitt. Árni og Herdís (sem var sjúkraþjálfarinn minn á Grensás þegar ég var þar) mega nota hlaupbrettið og salinn niðri þegar engin endurhæfing er í gangi. Þau gera það óspart, með þeim fer líka bandaríkjamaður sem er hér með son sinn. Bandaríkjamaðurinn er búin að koma hingað einu sinni áður og er nú í annarri ferðinni hér með son sinn sem er líkl. í kringum 25 ára aldur en lenti í bílslysi fyrir 2 árum með þeim afleiðingum að hann lamaðist frá öxlum og niður, hann er með einhverja hreyfigetu í handleggjum og puttum. Hann hefur farið með son sinn í hinar og þessar meðferðir en er sannfærður um að þessi hér sé að skila mestum árangri og talar um að hann sé að fá einhvern hreyfimátt í suma vöðva. Hann virðist alveg hafa helgað sig því að koma stráknum á fætur, en hann á stóran nautgripabúgarð í USA sem hann hefur eiginlega ekki getað unnið neitt við síðan slysið varð og segir að líklega líða langur tími enn þar til hann komist aftur til vinnu sinnar, þar sem strákurinn á svoldið langt í land með að fara að ganga.

Um þrjúleitið fórum við að skoða gömlu Delhí. Alltaf er ný útfærsla af því hvernig stólnum mínum er komið fyrir því nú kom bíll  með svo litlu skotti að ekki var hægt að koma stólnum inn. Bílstjórinn dó ekki ráðalaus heldur henti stólnum á þakið og batt hann þar öðru megin niður, okkur fannst þetta nú svoldið ótraust og bjuggumst alveg eins við því að stóllinn yrði dinglandi utan á annari hlið bílsins í einni beygjunni, en það slapp til. Því miður kunni bílstórinn afar litla ensku þannig að lítið var hægt að fræðast af honum um hvaða staði við værum að fara fram hjá. Hann fór með okkur eftir götum sem við höfðum ekki séð áður í Delhí. Breið stræti með fallegum trjágöngum, snyrtilegum byggingum, fallegum görðum, engu rusli og engum fátækrakofum. Við vorum náttúrlega alveg uppnumin, og eftir á að hyggja held ég að viturlegt væri að fólki væri keyrt í gegnum eina svona götu á leið þess frá flugvellinum og að hjúkrunarheimilinu, það myndi spara svoldið af sjokkinu. Við komum inn í gamla borgarhlutann og þar sem við vorum með bílinn í 4 tíma byrjaði bílstjórinn á að finna bílastæði. Verulega þröngt bílastæði fundum við og leist okkur íslendingunum allsekki á að kall gæti troðið sér þar, en með töluverðri lagni tókst honum það. Þegar við komum út biðu eftir okkur 2 gaurar sem greinilega höfðu lifibrauð sitt af því að hjóla með fólk í svokölluðu Rikksjaw - örugglega ekki rétt skrifað hjá mér. Bístjórinn bægði strax öðrum þeirra frá og sagði að við færum ekkert með honum. Hinn stökk af hjólinu og hélt sig í námundan við okkur þar til við vorum komin út fyrir bílastæðasvæðið. Þar sem við vorum að ráðgera hvernig við kæmum okkur inn í stærstu mosku Asíu - Jama Masjid- kom hann til okkar og sagðist geta sýnt okkur gömlu Delhí og hjálpað okkur inn í moskuna. Við vorum frekar neikvæð á það en hann bara hló og sagðist ekki vera neinn leiðsögumaður þannig að við þyrftum ekkert að borga, bara að koma svo lagði hann af stað og við eltum. Við fórum upp þröngt stræti, þar sem mikið var af hjólaflutningamönnum með þunga farma á hjólunum, allskonar búllur voru opnar og engin þeirra þannig að maður þyrði að kíkja þar inn fyrir, eftir nokkra stund vorum við komin að moskunni en sjálfskipaði leiðsögumaðurinn var alltaf á undan að riðja brautina fyrir okkur, þegar við vorum komin að hliðinu inn í moskuna ætluðum við að borga kalli en þá var eins og hann hefði gufað upp. Margar tröppur voru upp í moskuna þannig að ég ákvað að bíða við innganginn á meðan Herdís fór upp, hún þurfti að fara í einhverja flík utan yfir sig áður en hún fékk að fara inn. Árni rölti um og skoðaði bygginguna utan frá. Eftir nokkra stund voru þau komin til baka og vorum við farin að spá í hvort óhætt væri að fara inn í þessi þröngu stræti gömlu Delhíar og hvort við myndum ekki bara villast þarna, eða lenda í vandræðum. Þar sem við vorum að vandræðast þetta var okkar sjálfskipaði leiðsögumaður mættur, hann spurði hvort við vildum ekki sjá gömlu Delhí sem við náttúrlega vildum og svo héldum við af stað. Hann alltaf aðeins á undan og sagði okkur frá strætinu sem hann var að fara inní, Ótrúlegur fjöldi fólks var á ferðinni eftir þessum þröngu götum sem voru svo mjóar að ég nærri náði með höndunum yfir strætið þegar ég rétti þær út. Þarna var strætunum skipt upp, við fórum eftir silfurstræti þar sem ekkert var selt nema glingur, silfur, gull og fleira. Skuggalegir náungar sátu í verslunarholum sínum og kölluðu til okkar að skoða þegar við fórum um. Næst beygði leiðsögumaðurinn inní svokallað Brúðkaupsstræti, en þar fékkst allt sem fólk vanhagaði um fyrir brúðkaupið. Þetta var ótrúleg upplifun, mér fannst eins og ég væri að keyra um þrönga ranghala í risastórri byggingu. Ef maður leit upp sá maður glitta í himin einhverstaðar langt fyrir ofan okkur og nánast lokuðu byggingarnar fyrir það útsýni þar sem gömul, hrikaleg og drungaleg húsin gnæfðu yfir okkur. Kannski einna helst að líkja þessu við dimmustu strætin sem maður hefur séð í bíómyndum gerðum eftir bókum Charles Dickens. Og allstaðar voru skítug og hálfber börn að reyna að fá eitthvað frá okkur útlendingunum. Okkur íslendingunum leið ekkert sérlega vel þarna, og vorum hálfhrædd um að kannski væri þessi sjálfskipaði leiðsögumaður bara að leiða okkur í ógöngur, þar sem við yrðum lamin og rænd og skilin svo eftir í einhverri holunni þarna. Þess vegna ákváðum við að snúa til baka meðan við vissum enn nokkurnveginn hvernig  við kæmumst út. Eftir smá stund var leiðsögumaðurinn komin aftur - og hélt upptekinni iðju við að riðja okkur braut, sem sannarlega var ekki vanþörf á þar sem geitur, mótorhjól, hundar, reiðhjól, hjólaflutningamenn og gangandi fólk voru á ferðinni um drungaleg strætin. Við komumst heilu og höldnu út undir beran himinn og ætluðum nú að skoða virkið utan frá en eftir nokkrar tilraunir ákváðum við að fara bara í bílinn aftur. Við einn markaðinn stoppuðum við og vorum að spá í einhverja klúta. Okkar sjálfskipaði leiðsögumaður kom strax og sagði okkur að vera ekkert að skoða þetta, þetta væri allt ódýrt drasl úr lélegum efnum. Viðskiptum okkar lauk þegar hann var  búinn að láta bílstjórann koma með bílinn út til okkar og við gaukuðum að honum pening, hann bað okkur um að tala við sig ef við kæmum aftur.

 Dagur 9

Sunnudagur, og engin endurhæfing og friður fyrir hjúkkunum, við skriðum úr bælinu um tólfleitið. Í dag er frídagur hér í Delhí, við ákváðum að kíkja á markað sem heitir Dillí Hat, frægur markaður þar sem handverksfólk kemur og selur vörur sínar. Hver hópur hefur 10 daga og svo er skipt út. Við vorum ferðbúin niður í anddyri kl. hálffjögur, kemur þá ekki bandaríkjamaðurinn og æsir Árna með sér í jóga, í jóga!

Árni vildi ekki vera dónalegur og sagðist aðeins ætla að kíkja með kalli, við Herdís biðum. Um korter í fimm fannst mér nóg komið og ákvað að kíkja niður í kjallara og gá hvað þeir væru að gaufa. Jú þeir lágu á sitthvorri dýnunni og voru að teygja á mjöðmunum, verð að segja að sá gamli (bandaríkjamaðurinn) var mun liðugri en kallinn minn. Þegar mér þótti orðið nóg um teygjurnar ákvað ég að trufla serímoníuna og minna á að við höfðum ætlað á markaðinn. Ekki stóð á svörum þetta var alveg að verða búið. Klukkan að ganga sex komumst við svo loks af stað, og segið svo að kvenfólkið láti bíða eftir sér, hér er því allavega öfugt farið. Við vorum yfir okkur ánægð með leigubílinn sem var með bílbeltum aftur í, svoleiðis lúxus eigum við ekki að venjast og svo nógu stórt skott fyrir stólinn. Leigubílinn tökum við í 4 tíma og borgum honum með bílastæðinu 650 rúbíur sem eru um 1800 íslenskar krónur. Hann keyrði okkur á markaðinn við þurftum að fara í gegnum öryggisgæslu en þegar inn var komið var ótrúlega rúmt á okkur og greinilega gert ráð fyrir að hægt væri að fara um á hjólastól. Markaðssvæðið var mjög vel skipulagt og allt hreint, þess var gætt af vopnuðum vörðum sem spígsporuðu í kringum okkur með stærðarinnar riffla. Maður velti því fyrir sér hvort þeir þyrftu virkilega að nota þessi vopn og vonuðum náttúrlega að losna við svoleiðis vesen. Allstaðar voru kaupmenn að bjóða kasmírsjöl og ullarblöndur til sölu, silki og silkiblöndur. Sjölin voru ótrúlega fallega útsaumuð og mikið lagt í handverkið og að sjálfsögðu voru allir með bestu verðin. Fallegt kasmírsjal úr óblandaðri kasmírull var svona um 8000 rúbíur og uppúr sem gera um 22000 krónur. Ég lærði að þekkja muninn á ekta kasmírsjali og blönduðu. Við eyddum töluverðum tíma í að þrefa við kaupmenn og skoða handverkið og var Árni algjörlega orðin hissa á hvernig við nenntum að vera alltaf að skoða sömu sjölin í hverjum básnum á fætur öðrum. Það var bara svoldið ervitt að fara framhjá því allir vildu sýna okkur fallegasta hlutinn á markaðnum, Árna fannst við Herdís vera svoldið ljóshærðar varðandi hvað við létum plata okkur og fannst við allsekki kunna að prútta, ég verð að viðurkenna að ég gat bara ekki staðið í því, sá fyrir mér lítil börn, konur og gamalmenni sem eyddu árinu í að sauma út í þessi sjöl og fengu svo lítið sem ekkert fyrir það. Markaðsferðin var vel heppnuð og vorum við heldur ánægð með okkur þegar við komum aftur upp á hjúkrunarheimilið. Búin að finna stað þar sem virkilega væri gaman að versla á.



Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir